Til minningar um Herdísi Þuríði Sigurðardóttur

 

Herdís Þuríður Sigurðardóttir 07.07.1976 - 18.09.2021

 

Við sitjum hljóð og reynum að skilja hvers vegna, hvers vegna þessi dýrmæta kona í lífi okkar er kölluð á brott. Enginn lofaði okkur að lífið yrði auðvelt eða sanngjarnt en við áttum ekki von á að það yrði svona ósanngjarnt.

Herdís byrjaði að vinna sem íslenskukennari við Framhaldsskólann á Húsavík haustið 2006. Strax kom í ljós hversu vandvirk og dugleg hún var. Hún var vinsæl meðan nemenda og samstarfsmanna. Þessi undurfagra fíngerða og ljúfa kona leið um gangana eins og hefðarkona frá London. Enda var Dísa mikill aðdáandi drottningarinnar þar og á tyllidögum drakk hún enskt te úr fallegum bolla frá London.

Herdís hafði mikinn metnað fyrir starfi sínu og skólanum og til gamans má geta þess að glósurnar hennar hafa verið notaðar af fjölmörgum nemendum og kennurum um allt land, því þær þóttu svo góðar, skýrar og skilmerkilegar. Herdís tók við sem aðstoðarskólameistari árið 2012 og gegndi því starfi til ársins 2017. Það beið hennar gríðarlega mikil vinna við að móta nýja námskrá skólans fyrir utan allt annað sem starfinu fylgdi. Herdís var mjög afkastasöm og vandvirk og vann við þetta verkefni myrkranna á milli. Aldrei kvartaði hún eða barmaði sér og aldrei sagði hún frá því hvað hún var dugleg eða hversu mikil vinna þetta væri. Hún bara gerði allt sitt ofboðslega vel. Dísa varð skólameistari skólaárið 2017-2018 og var skilningsríkur og þrautseigur skólameistari. Hún reyndist starfsfólki hér einstaklega vel og var vinsæl meðal nemenda. Dísa var fyrst til að hugga, styðja og styrkja okkur starfsmennina ef eitthvað bjátaði á í okkar einkalífi. Hún var sterk og ákveðin og hún hafði sannarlega hjarta úr gulli.

Dísa var mikill húmoristi og alltaf til í sprell og tók alltaf þátt í skemmtiatriðum sem starfsfólk skólans stóð fyrir. Hún hafði mjög fágaðan smekk í gríninu og var alls ekkert fyrir ódýra aulabrandara. En þegar hún sagði eitthvað skemmtilegt eða fyndið kom þessi óborganlegi glampi í augun á henni og sá glampi er ein af sterkustu minningum okkar um Dísu.

Herdís átti tvö börn þegar hún kom til okkar og á meðan að hún vann hér komu tvö til viðbótar. Það var því meira en nóg að gera á stóru heimili, en með honum Óla sínum bjuggu þau börnum sínum ástríkt og fallegt heimili.

Í gegnum tíðina bauð Herdís okkur nokkrum sinnum heim og þá sá maður hvað allt var smekkleg því Dísa hafði mikinn áhuga á hönnun og heimili hennar bar þess skýr merki og var einstaklega fallegt en samt nothæft. Börnin hennar og vinir þeirra voru alltaf velkomin og þar mátti leika og það sást að þau voru í forgangi og þau báru virðingu fyrir fallegu hlutunum sem mamma þeirra átti. Til þess að rækta sjálfa sig lagði hún það á sig að vakna klukkan sex á morgnana og njóta kyrrðarinnar í upphafi hvers dags með góðan kaffibolla og hönnunarblað að glugga í.

Elsku Óli, Halldór Tumi, Elín Anna, Búi og Nóri við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi allar góðar vættir styrkja ykkur á komandi árum.

Fyrrverandi samstarfsfólk við Framhaldsskólann á Húsavík