Reglur um skólasókn

Nemendur skulu sækja allar kennslustundir stundvíslega. Hverri önn er að jafnaði skipt upp í 3-4 vikna tímabil og skoðar aðstoðarskólameistari mætinguna í lok hvers tímabils. Verði misbrestur á mætingu gilda eftirfarandi viðurlög:

Viðvörun:
Sé mæting nemanda á tímabili, að teknu tilliti til veikinda og leyfa, undir 90% fær viðkomandi viðvörun frá skólastjórnendum. Viðkomandi nemandi er kallaður til fundar hjá aðstoðarskólameistara og námsráðgjafa þar sem skýringa er leitað á slakri viðveru. Foreldrar/forráðamenn ólögráða nemenda skulu sitja fundinn og skal hann haldinn innan þriggja virkra daga eftir að nemandi hefur verið upplýstur um niðurstöður fjarvistatalningar. Nemandi með viðvörun getur losað sig undan henni ef heildarmæting allra tímabila hans á önninni er samtals yfir 90%.

Úrsögn:
Nemandi með viðvörun þarf að skrá sig úr einum áfanga fyrir hvert tímabil sem mæting hans að teknu tilliti til veikinda og leyfa er undir 90%. Þetta skal aðstoðarskólameistari vinna í samráði við nemandann, umsjónarkennara og námsráðgjafa og skulu foreldrar/forráðamenn ólögráða nemenda upplýstir um málið. A.m.k. þrír virkir dagar skulu líða frá því að rætt er við nemanda þangað til hann er skráður úr áfanga í Innu og getur nemandi á þeim tíma sent skriflegt erindi til skólaráðs þar sem óskað er eftir undanþágu frá reglum um skólasókn með rökstuðningi fyrir því hvers vegna undanþága skuli veitt. Skal nemandi upplýstur um niðurstöðu skólaráðs innan sólarhrings frá því að ráðið kemur saman.

Brottvísun:
Gerist nemandi sekur um að fara ítrekað niður fyrir tilskilda skólasókn áskilur skólinn sér leyfi til að neita nemandanum um námsvist á komandi önn(um).

Viðverumerkingar í kennslustundum:
Mæting nemenda í kennslustundir er skráð daglega og færð í fjarvistabókhald skólans (Innu) í lok hverrar kennsluviku. Viðverumerkingar eru sem hér segir:
M = sjálfgefinn viðverukóði, nemandinn er í kennslustundinni.
F = fjarvist úr 45 mínútna kennslustund. Gefur 1 fjarvistastig.
G = fjarvist úr 30 mínútna kennslustund auk námstækni og hvatningar og íþrótta. Gefur 0,67 fjarvistastig.
Komi nemandi of seint í kennslustund, þ.e. eftir að kennari er búinn að lesa upp og kennsla er hafin, telst nemandinn fjarverandi þá kennslustund.
Þ = fjarvist fjarnámsnemi

Frádráttarliðir fjarvista:
V = veikindi
L = leyfi
A = töfluárekstur

Veikindi
Tilkynningar um veikindi skulu berast til skrifstofu skólans fyrir kl. 10:00 þann morgun sem nemandinn er veikur. Veikindi nemanda, sem ekki hefur náð 18 ára aldri, skulu tilkynnt af forráðamanni. Langvarandi og þrálát veikindi skal staðfesta með læknisvottorði. Við fjarvistatalningu skal tekið sérstakt tillit til nemenda sem framvísað hafa veikindavottorði og skulu fjarvistir þeirra ekki hafa áhrif á rétt þeirra til náms í stökum áföngum eða í skóla almennt. Fari veikindadagar nemanda fram yfir 5 daga samfellt eða 10 daga yfir önn er nemandanum beint til skólahjúkrunarfræðings sem tekur ákvörðun um hvort vísa þurfi nemandanum áfram til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Verði nemandi uppvís að því að misnota rétt sinn til fjarvista vegna veikinda skal breyta veikindamerkingum í fjarvist.

Leyfi
Til greina kemur að veita nemanda tímabundið leyfi frá skóla vegna brýnna erinda. Aðeins skólameistari og aðstoðarskólameistari geta veitt slíkt. Forráðamenn nemenda, sem ekki hafa náð 18 ára aldri, sækja um leyfi fyrir börn sín. Eldri nemendur geta sótt sjálfir um leyfi. Til greina kemur að veita leyfi fyrir ferðalögum á vegum íþróttafélaga eða annarra tómstundafélaga. Foreldrar nemenda yngri en 18 ára sækja um slíkt leyfi til skólastjórnenda en þjálfarar, eða aðrir forsvarsmenn félaga, skulu sækja um það fyrir hönd nemenda sem eru eldri en 18 ára. Ekki er veitt leyfi hluta úr degi vegna heilbrigðiserinda sem sótt eru innanbæjar nema um ítrekaðar heimsóknir sé að ræða. Alltaf er gefið leyfi fyrir heilbrigðiserindum eða ökuþjálfun sem sækja þarf utanbæjar. Leyfið er þá veitt gegn komukvittun. Alla jafna er gert ráð fyrir að nemandi nýti það svigrúm sem hann hefur frá skólasókn til að sinna persónulegum erindum á skólatíma. Athygli skal sérstaklega vakin á því að það fjarvistasvigrúm sem nemendur hafa er ekki skrópkvóti heldur ber að nota þetta svigrúm til að sinna öllum þeim persónulegu erindum sem upp kunna að koma á skólatíma. Nemendum og forráðamönnum þeirra er bent á að ígrunda nauðsyn langvarandi fjarvista vandlega með það í huga hvort nemandinn þolir að missa af náminu sem fram fer í skólanum á meðan á fjarvist stendur.

Vottorð
Nemendur með vottorð hafa heimild til að sleppa kennslustund ef það er óhjákvæmilegt. Þessir nemendur fá ekki skriflega viðvörun þótt mætingarprósenta þeirra sé undir mætingarviðmiði hverju sinni. Sömuleiðis undirgangast þeir ekki sömu viðurlög og reglulegir dagskólanemendur við frávikum frá skólasóknarreglum. Nemendur með vottorðsmerkingu undirgangast hins vegar sama námsmat og aðrir nemendur. Sótt er um vottorðsmerkingu til aðstoðarskólameistara gegn framvísun læknisvottorðs. Áður en vottorðsmerking er gefin þarf nemandi þó að fara í viðtal hjá skólahjúkrunarfræðingi sem leggur mat á hvort nauðsynlegt sé fyrir nemandann að útvega sér læknisvottorð. Hjúkrunarfræðingur leggur sömuleiðis mat á hvort nauðsynlegt sé að kalla nemandann reglulega til viðtals hjá sér. Mæti nemandi ekki reglulega í umsamda viðtalstíma hjá skólahjúkrunarfræðingi missir hann vottorðsmerkingu. Alla jafna gildir vottorðsmerking út yfirstandandi skólaár.

Mæting í vinnustundir
Nemendur mæta í vinnustundir í samræmi við fjölda þeirra áfanga sem þeir eru skráðir í. Áfangar á borð við íþróttir og námstækni og hvatningu eru þó fyrir utan þennan áfangafjölda, þ.e. skráning í íþróttaáfanga eða námstækni og hvatningu leiðir ekki af sér auka vinnustund:
1 áfangi: 1 vinnustund
2 áfangar: 2 vinnustundir
3 áfangar: 3 vinnustundir
4 áfangar: 4 vinnustundir
5 áfangar eða fleiri: 5 vinnustundir

Skráning úr áföngum
Í fyrstu viku eftir að kennsla hefst á nemandi þess kost að breyta stundatöflu sinni án þess að úrsagnir séu skráðar. Eftir það eru úrsagnir skráðar í námsferil nemanda. Ákveði nemandi að hætta í áfanga eftir að töflubreytingum er lokið skal nemandi skrá sig úr áfanganum skriflega á þar til gerðu eyðublaði sem fæst hjá aðstoðarskólameistara. Úrsögn tekur gildi frá og með þeim degi sem aðstoðarskólameistari undirritar úrsögnina og eru fjarvistir í áfanganum skráðar þangað til. Eftir að auglýstur frestur til úrsagna er liðinn fær nemandi sem hættir í áfanga skráð fall í námsferil. Nemandi getur þó sagt sig úr námi í heild hvenær sem er. Tilkynningar um slíkt skulu berast til aðstoðarskólameistara sem skráir jafnframt ástæður brottfalls í skólakerfið Innu.

Frjáls mæting
Þeir nemendur sem fá frjálsa mætingu hafa heimild til að sleppa kennslustund ef það er óhjákvæmilegt. Þessir nemendur fá ekki skriflega viðvörun þótt mætingarprósenta þeirra sé undir mætingarviðmiði hverju sinni. Sömuleiðis undirgangast þeir ekki sömu viðurlög og dagskólanemendur við frávikum frá skólasóknarreglum. Sótt er um frjálsa mætingu til aðstoðarskólameistara í fyrstu viku hverrar annar. Eftirfarandi nemendur geta sótt um frjálsa mætingu:

  • Nemendur sem hafa náð 20 ára aldri. Aldurinn heimilar hins vegar ekki sjálfkrafa frjálsa mætingu.
  • Nemendur sem af sérstökum ástæðum telja sig ekki geta uppfyllt almennar reglur um skólasókn.
  • Nemendur sem hafa náð 18 ára aldri og skrá sig í að hámarki 16 einingar á viðkomandi önn (10 einingar skv. eldri námskrá).

Allir nemendur sem sækja um frjálsa mætingu þurfa að tilgreina ástæður umsóknar.

Nemendur og kennarar gera samning um verkefnaskil og námsmat. Skyldur nemenda ráðast af samningi þessum. Nemendum ber að ljúka við vinnu og standast kröfur áfangans samkvæmt námsáætlun óháð mætingu. Kennari þarf ekki að koma upplýsingum sérstaklega til nemenda og nemendur hafa engan sérstakan rétt til að krefja kennara um kennslu í námsatriðum sem hann kann að hafa farið yfir að þeim fjarstöddum. Nemendum er bent á að útvega sér tengilið úr hópi staðnema í hverjum áfanga. Ef nemandi með frjálsa mætingu hefur ekki samband við kennara fyrstu þrjár kennsluvikur annarinnar, og lætur ekki vita af sér að öðru leyti, áskilur Framhaldsskólinn á Húsavík sér rétt til þess að skrá viðkomandi nemanda úr námi, enda hafi frekari eftirgrennslan reynst árangurslaus. Skólanum ber ekki skylda til þess að heimila nemendum með frjálsa mætingu að taka próf annars staðar en í húsnæði Framhaldsskólans á Húsavík.

Athygli er vakin á því að sumir áfangar eru þess eðlis að ekki er hægt að heimila frjálsa mætingu í þeim. Þar má nefna íþróttir, skyndihjálp og lífsleikni.
Athugið einnig að frjáls mæting er EKKI það sama og fjarnám.

Undanþágur frá íþróttaáföngum.
Nemendum, sem hafa lokið tveimur íþróttaáföngum, er heimilt að stunda íþróttir utan stundatöflu í samráði við íþróttakennara. Þessir nemendur geta fengið aðra líkamsrækt metna til eininga að því gefnu að þeir stundi líkamsrækt í a.m.k. 80 mínútur á viku á yfirstandandi önn. Einungis er hægt að ljúka einni einingu í íþróttum á önn.

P-nám
P-áfangar kallast þeir áfangar þar sem nemandi þreytir próf án tímasóknar. Hægt er að sækja um p-nám ef sýnt þykir að áætluð námslok frestist að öðrum kosti og nemandinn hefur staðið sig vel í námi að öðru leyti. Nemandi getur þó aldrei tekið meira en 10 einingar í p-námi á önn (6 einingar skv. eldri námskrá). Sótt er um p-áfanga til aðstoðarskólameistara í fyrstu viku hverrar annar. Nemandi fær í upphafi annar vinnuáætlun frá kennara, þar sem fram koma upplýsingar um námsefni, námsmat og verkefnaskil. P-nemanda er skylt að hafa samband við kennarann í upphafi annar og skipuleggja nám sitt í samráði við hann. Athygli er vakin á því að sumir áfangar eru þess eðlis að ekki er unnt að leggja stund á þá án tímasóknar.

Mætingareining
Nemendum er gefin einkunn í prósentum fyrir skólasókn og birtist hún á útskriftarskírteini þeirra. Nemendur sem hafa 98% raunmætingu eða meira á önn fá sérstaka mætingareiningu í lok annar.