Reglur um hegðun, umgengni og samskipti

Litið er á nám í skólanum eins og hverja aðra vinnu sem sinnt er af alúð og samviskusemi. Nemendum ber að sækja allar kennslustundir stundvíslega og skila verkefnum á réttum tíma.

Í Framhaldsskólanum á Húsavík er áhersla lögð á að öllum líði vel, bæði nemendum og starfsfólki. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skólans hvað varðar nám, notkun tölva og snjalltækja, hegðun og umgengni og gæta þess að trufla ekki vinnufrið í skólanum. Kennurum og öðru starfsfólki ber að hafa uppbyggileg og jákvæð samskipti að leiðarljósi við dagleg störf sín í skólanum. Kennurum er ekki heimilt að vísa nemendum úr kennslustund nema brýna og augljósa nauðsyn beri til. Í slíkum tilvikum skal nemanda alltaf beint til skólameistara eða staðgengils hans.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og námsframvindu, framkomu sinni og samskiptum við samnemendur og starfsfólk skólans. Nemendum ber að sýna nærgætni og gæta virðingar í allri framkomu sinni. Þetta ber ekki síst að hafa í huga varðandi notkun á snjallsímum, interneti og í öllum rafrænum samskiptum. Óheimilt er að taka myndir og myndskeið í kennslustundum nema samþykki kennara og viðkomandi nemenda liggi fyrir.

Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið í Framhaldsskólanum á Húsavík. Sjá forvarnar- og viðbragðsáætlun við einelti.

Nemendum ber að ganga vel um húsnæði og eigur skólans sem og skólalóð. Valdi nemandi tjóni á húsnæði, skólalóð eða öðrum eignum skólans, ber honum að bæta skaðann.

Neysla matvæla er leyfileg í matstofu nemenda, setustofu og á göngum skólans en ekki í skólastofum og á bókasafni.

Nemendum ber að fara úr útiskóm í forstofu og skilja þá eftir í skóhólfum sem þar eru.

Æskilegt er að nemendur noti skápa á nemendagangi undir persónulegar eigur sínar. Nemendum ber að gæta þess að skilja þær ekki eftir í skólastofum eða á nemendagangi.

Neysla og sala tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er bönnuð í skólanum, á lóð hans og á skemmtunum og í ferðalögum á vegum skólans. Þetta á einnig við um rafsígarettur.

Meðferð mála
Nemanda, sem brotið hefur skólareglur, er veitt skrifleg áminning. Forráðamönnum nemenda undir 18 ára aldri er sent afrit af áminningunni. Nemandi hefur andmælarétt sem miðast við þrjá virka daga áður en gripið er til viðurlaga. Sum brot, s.s. brot á almennum hegningarlögum, eru þó þess eðlis að grípa verður til viðurlaga tafarlaust. Komi upp ágreiningur í skólanum milli nemenda, kennara, annars starfsfólks skólans eða utanaðkomandi aðila skulu aðilar leitast við að leysa hann sín á milli. Sættist aðilar ekki er málinu vísað til skólastjórnenda sem ákvarða í málinu. Náist ekki sátt um þá niðurstöðu má vísa málinu til menntamálaráðuneytis. Telji nemandi að kennari eða annað starfsfólk skólans hafi brotið á honum með einhverjum hætti skal það tilkynnt til skólameistara sem gerir viðeigandi ráðstafanir í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Viðurlög
Viðurlög við broti á skólareglum geta verið brottrekstur úr áfanga eða skóla, tímabundið eða til frambúðar eftir eðli málsins. Nemendur sem brjóta reglur um tóbak, áfengi eða önnur vímuefni skulu ræða við áfengis- og fíkniefnaráðgjafa áður en skólaganga hefst á ný.