Tengsl við skóla og atvinnulíf

Markmið samskipta og samstarfs við aðra skóla er að:

  1. Efla menntun og skólastarf í héraðinu á öllum skólastigum
  2. Auka fjölbreytni námsframboðs
  3. Nýta aðstöðu og kennslukrafta í þágu sem flestra
  4. Vinna að verkaskiptingu og hagræðingu í skólastarfi
  5. Taka á móti og þjóna nemendum sem koma úr grunnskólum í Þingeyjarsýslum.

Grunnskólar

Skipulagðar verði kynningar á námi við FSH í grunnskólunum.
Nemendum í 9-10 bekk grunnskólanna verði boðið á sérstaka viðburði í FSH s.s. leiksýningar.
Kennarar og nemendur FSH skipuleggi spurningakeppni og/eða námsgreinabundna keppni eða þrautir fyrir grunnskóla í héraðinu

Framhaldsskólar

Skólinn tekur þátt í samstarfi framhaldsskólanna á Norðurlandi innan SAMNOR (Samstarfsnefnd framhaldsskóla á Norðurlandi). Skólinn er aðili að og tekur þátt í starfi Félags framhaldsskóla. Í slíku samstarfi er lögð áhersla á að kynnast nýjungum í starfi annarra skóla og kynna það sem vel hefur tekist í starfi skólans.

Háskólar

Námsráðgjafi kynnir nám á háskólastigi fyrir nemendum skólans í samvinnu við kynningarfulltrúa háskólanna. Auðvelda þarf fólki búsettu á Húsavík að stunda nám á háskólastigi. Það verður best gert með því að bjóða aðgang að nettengdum tölvukosti, fjarfundabúnaði og lesaðstöðu í skólanum. Ef aðstæður skapast til kennslu á háskólastigi á Húsavík er FSH reiðubúinn til samstarfs um það verkefni.

Samskipti við atvinnulífið

Meginmarkmið er að mennta hæfa starfsmenn til starfa á vinnumarkaði, annars vegar með almennri menntun sem nýtist í flestum eða öllum störfum og hins vegar með sérhæfðri menntun sem nýtist til ákveðinna starfa.
Framhaldsskólinn á Húsavík hefur takmarkaða möguleika á að bjóða stöðugt, fjölbreytt starfsnám en getur í staðinn brugðist við tímabundinni þörf fyrirtækja fyrir heildstætt stutt starfsnám á skilgreindri námsbraut. Skólinn leggur því áherslu á almenna menntun sem nýtist í flestum eða öllum störfum og að bjóða aðstöðu til endur- og símenntunar.
Skólinn þarfnast góðra upplýsinga um þarfir atvinnufyrirtækjanna fyrir menntun starfsmanna sinna. Skólinn þarf líka að geta upplýst atvinnulífið um skólahaldið, hverjar eru sterkar og veikar hliðar skólans, vaxtarmöguleika og takmörk.
Skólinn vill geta leitað til atvinnulífs um aðstoð við uppbyggingu á tækjakosti og þekkingu. Einnig til að hvetja nemendur til góðs árangurs með viðurkenningum.
Skólinn vill, í samstarfi við atvinnulífið, styrkja afburða nemendur til framhaldsnáms sem nýst gæti bæði skóla og atvinnulífi að námi loknu.
Til að ná þessum markmiðum er lagt til að komið verði á fót samstarfsnefnd atvinnulífs og skólans.