Rýmingaráætlun

Rýmingaráætlun vegna jarðskjálfta, eldsvoða og annarrar vár

Mótstaðir eru tveir. Við jarðskjálfta er það bílastæði skólans.

Við eldsvoða eða aðra vá er það íþróttahöllin.

Ef rýma þarf skólahúsið vegna elds eða annarrar hættu getur skapast ringulreið og þar með erfitt að vita hvort allir hafa komist út úr byggingunni. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa ákveðinn mótstað til að kanna hverjir eru komnir út úr byggingunni. Kennarar noti útprentaðar nemendaskrár, sem þeir tóku með sér úr kennslustund. Mótstaður er íþróttahöllin og þar eiga allir að safnast saman, starfsfólk og nemendur ef rýma þarf skólann, nema um sé að ræða jarðskjálfta en þá er safnast saman á bílastæði skólans.

Skólahúsið samanstendur af tveimur byggingum, kennsluhúsnæði og kennaraálmu, sem reistar voru á mismunandi tímum.

Kennsluhúsnæðið eru tvær hæðir og kjallari.
Á efri hæð eru sex kennslustofur, við vestur uppgang eru tvær kennslustofur, þrjár við austur uppgang og ein kennslustofa og fundarherbergi nemendafélags við suður uppgang.
Á neðri hæð eru þrjár kennslustofur, snyrtingar, herbergi húsvarðar, bókasafn, skrifstofa skólans og gangar.
Í kjallara eru geymslur, leiðslugangar, setustofa og matstofa nemenda.

Kennaraálma er ein hæð og kjallari.
Á hæðinni eru skrifstofur kennara og stjórnenda, snyrtingar, kennarastofa og matstofa starfsmanna og fundarherbergi.
Í kjallara eru tvær kennslustofur, upptökuherbergi, skjalageymsla, þrjár skrifstofur kennara, snyrting og geymslur.

Kennsluhúsnæðið er tvö brunahólf og kennaraálman er einnig tvö brunahólf, eitt á hvorri hæð.

Rýmingarleiðir:

Stofur 1, 2 og 3. Rýmingarleiðir eru þrjár:
a) Út um hurð á tengigangi og niður á þak, þaðan niður brunastiga við vestur-enda skólans.
b) Niður stiga og niður á gang og þaðan út um aðaldyr.
c) Niður stiga og niður á gang og þaðan út um neyðarútgang á miðjum gangi.

Stofa 7, bókasafn, skrifstofa skólans og herbergi húsvarðar. Rýmingarleiðir eru tvær:
a) Út á gang og út um aðaldyr.
b) Út á gang og út um neyðarútgang á miðjum gangi.

Stofur 4 og 5. Rýmingarleiðir eru tvær:
a) Niður stiga og niður á gang þaðan út um neyðarútgang á miðjum gangi á fyrstu hæð.
b) Út um neyðarútgang í stofu 5, þaðan niður brunastiga við vestur-enda skólans.

Stofur 8 og 9. Rýmingarleiðir eru tvær:
a) Út á gang og út um neyðarútgang á miðjum gangi á fyrstu hæð.
b) Út ganginn og út um aðaldyr.

Kvikmyndastofa og fundarherbergi nemendafélags. Rýmingarleiðir eru þrjár
a) Út um hurð á tengigangi og niður á þak, þaðan niður brunastiga við vestur-enda skólans.
b) Út á stigapall og niður á fyrstu hæð og út um aðaldyr.
b) Út um glugga niður á skyggni yfir aðalanddyri og niður brunastiga.

Kennsluálma í kjallara, þ.e. geymslur, matstofa nemenda og setustofa nemenda. Rýmingarleiðir eru tvær:
a) Út um útidyr í matstofu nemenda.
b) Upp stiga og upp á gang á fyrstu hæð og út um aðaldyr.

Kjallari í kennaraálmu, þ.e. stofa 11, stofa 12, upptökuherbergi, skjalageymsla, þrjár skrifstofur kennara, snyrting og geymslur.
Rýmingarleiðir eru þrjár:
a) Út um útidyr í stofu 11.
b) Út um opnanlegan glugga í stofu 12.
b) Upp stiga og út um starfsmannainngang.

Fyrsta hæð í kennaraálmu, þ.e. skrifstofur starfsfólks, kennarastofa og matstofa starfsmanna.
Rýmingarleiðir eru tvær:
a) Út um starfsmannainngang.
b) Út um opnanlegan glugga í matstofu starfsmanna.


Ef eldur kemur upp:

Hringið í slökkvilið í síma 112. Það sem þarf að koma fram:
1. Hvar er eldurinn.
2. Hver hringir.
3. Eru einhverjir í hættu.

Bjargið fólki úr húsinu:
1. Fyrst þeim sem eru í mikilli hættu.
2. Aðvarið alla sem stafar hætta af eldinum.

 

Slökkvistarf starfsmanna skólans:

Starfsmaður sem fyrstur verður var við eld reynir að slökkva hann og senda nemanda eða starfsmann til húsvarðar eða skólameistara til að gera viðvart.

EÐA starfsmaður sem fyrstur verður var við eld reynir að slökkva hann og brjóta gler í brunaboða til að gera viðvart.

Slökkvið eldinn með handslökkvitæki eða brunaslöngu ef hægt er. Upplýsingar um staðsetningu er að finna á myndum sem sýna flóttaleiðir og staðasettar eru í öllum rýmum skólans.

Lokið dyrum og gluggum til að hefta útbreiðslu eldsins.

Kynnið ykkur rýmingaráætlun skólans, hvar brunaslöngur og slökkvitæki eru og lesið leiðbeiningar á þeim.

Skoðið útgönguleiðir svo þið vitið hvað á að gera í raunverulegri neyð.

Heftið aldrei neyðarútganga né aðgang að handslökkvitækjum og brunaslöngum.


Ef allir þurfa að yfirgefa húsið:

Húsvörður og/ eða skólameistari sjá um samskipti við Securitas og slökkvilið með því að hringja.

Ritari og / eða aðstoðarskólameistari sjá um tæmingu á vistarverum í kjallara.

Kennarar sem ekki eru í kennslustund sjá um að loka öllum dyrum í skrifstofuálmu og leitast við að veita öðrum aðstoð eftir því sem þurfa þykir – bæði við rýmingu, t.d. í anddyri, og að reyna að slökkva eld ef hann er viðráðanlegur.

1. Kennari í kennslustund stjórnar nemendum sínum og vísar þeim á næstu greiðfæru útgönguleið og beint á mótstað. Kennari taki með sér útprentaða nemendaskrá. Kennari yfirgefur stofuna síðastur, lokar gluggum og dyrum og setur stól fyrir framan dyrnar.

2. Húsvörður stjórnar nemendum á bókasafni og vísar þeim á næstu greiðfæru útgönguleið og beint á mótstað.

3. Þeir kennarar sem eru ekki að kenna eða aðrir starfsmenn skólans sjá um að vísa þeim nemendum sem eru ekki í kennslustund á næstu greiðfæru útgönguleið og beint á mótstað.

 

Hvað gerist þegar eldur brýst út?

Við eldsútbrot í byggingu myndast fljótt mikill reykur sem leitar upp í loft, við það hyljast ljós, einnig rofnar rafstraumur oft og það verður dimmt.Við þessar aðstæður verður að rýma bygginguna strax. Reykurinn veldur því að útsýni verður nær ekkert og því er mikilvægt að fólk þekki vel útgönguleiðir.

Eitraðar lofttegundir sem myndast við eldsútbrot eru t.d. kolmónoxið (CO)og blásýra (HCN). Kolmónoxíð myndast við bruna þar sem skortur er á súrefni. Blásýra myndast við bruna á polyuretan, sem er notað í uppstoppunarefni í húsgögn, einangrun og fleira.

Eldsprenging verður þegar hitinn í reyknum er orðinn um 600° C og kviknar í gasi frá upphafsbrunanum. Við þetta eykst hiti skyndilega upp undir 1000° C.

 

 

Uppfært október 2023