Heilsunuddbraut

Markmið náms á heilsunuddbraut er að gera nemandann hæfan í starfsgrein sinni og þjálfa þá verklegu færni sem er grunnur starfsins. Starfsvettvangur heilsunuddara er fjölbreyttur og tekur nám og kennsla mið af því. Mikil áhersla er lögð á heildræna yfirsýn og þá staðreynd að hver skjólstæðingur er einstakur og hefur þörf fyrir einstaklingsmiðaða meðferð. Nemendur tileinka sér nuddaðferðir og krafist er ákveðinnar líkamlegrar lágmarksfærni í verklegum áföngum. Áhersla er lögð á að þjálfa rétta líkamsbeitingu sem er mikilvæg í starfi heilsunuddara.

Sá sem lýkur námi á námsbrautinni hlýtur starfsheitið heilsunuddari og hefur, skv. reglum Félags íslenskra heilsunuddara (FÍHN), rétt til að setja á stofn og starfrækja nuddstofu. Þegar nemendur útskrifast af brautinni fá þeir í hendur starfsmenntaskírteini samhliða prófskírteini, sem þeir geta haft uppi á starfsstöð sinni til staðfestingar á því að þeir hafi lokið námi á heilsunuddbraut.

Heilsunuddarar starfa bæði sjálfstætt og sem launþegar. Starfsvettvangur þeirra er á heilsunuddstofum eða öðrum stöðum sem veita heilsutengda þjónustu, s.s. heilsustofnunum, líkamsræktarstöðvum eða heilsulindum. Hverjum útskrifuðum heilsunuddara er frjálst að ganga í Bandalag íslenskra græðara (BÍG) og starfa jafnframt sem skráður græðari. Um græðara gilda þingfest lög nr. 34 frá árinu 2005. Hægt er að taka viðbótarnám til stúdentsprófs meðfram námi á brautinni eða að því loknu.

Skilyrði til innritunar í nám á heilsunuddbraut er að nemandi hafi lokið skyldunámi í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla og náð tilskildum lágmarksárangri skv. ákvæðum reglugerðar um innritun nemenda í framhaldsskóla. Miðað er við að nemandi hafi lokið flestum bóklegum áföngum brautarinnar áður en verklegt nám getur hafist. Nemendur verða að hafa náð 18 ára aldri þegar þeir hefja verknám á þriðja hæfniþrepi.

Nám á heilsunuddbraut er samtals 200 framhaldsskólaeiningar, 51 á fyrsta þrepi, 85 á öðru þrepi og 64 á því þriðja. Í sumum áföngum er bóknámi og verknámi fléttað saman. Flestir verknámsáfangar eru á þriðja þrepi og að stórum hluta þannig uppbyggðir að nemendur æfa innlagða tækni á hver öðrum. Sérgreinar heilsunuddbrautar eru 71 feiningar, auk 23 feininga starfsþjáfunar, samtals 94 feiningar. Hinar 106 feiningarnar eru sameiginlegar öðrum brautum, aðallega starfsmenntabrautum á heilbrigðissviði.

Markviss verkþjálfun hefst á lokaönn verknámsins og fer í upphafi fram í nuddaðstöðu skólans en færist síðan út á stofur og stofnanir þar sem heilsunuddarar starfa. Náminu lýkur með því að nemendur eru í handleiðslu í skóla eða hjá viðurkenndum meðferðaraðila í eina önn eftir að verknámi lýkur og starfsþjálfun er hafin.

Markmið starfsnáms er að nemandinn fái tækifæri til að þroska hæfni sína við raunverulegar aðstæður, fyrst undir leiðsögn kennara á nuddstofu skólans en síðar á nuddstofum utan skólans. Starfsþjálfunin á að brúa bilið milli náms og starfs þannig að nemandi geti við útskrift gengið sjálfstæður og öruggur með þjálfaða verkfærni út í atvinnulífið. Starfsþjálfun fer fram í þremur áföngum. Markviss verkþjálfun hefst á verknámstímanum á nuddstofu skólans, þar sem almenningur getur fengið nudd hjá nemum. Hluti þjálfunar fer fram í sérdeild skólans þar sem hreyfihömluðum nemendum er boðið upp á nudd.

Markmiðið með því er að nemendur kynnist fjölþættum viðfangsefnum heilsunuddara. Seinni hluti markvissrar verkþjálfunar fer fram í skólanum samhliða starfsþjálfun.

Nám á heilsunuddbraut við Framhaldsskólann á Húsavík (FSH) er unnið í samstarfi við Fjölbrautaskólann við Ármúla (FÁ). Bóklegar sérgreinar námsbrautarinnar eru kenndar í fjarnámi frá FÁ. Almennar greinar eru kenndar í fjarnámi frá FSH. Sérgreinar verknámsins eru kenndar í staðlotum frá FSH.  Við höfum útbúið góða aðstöðu fyrir heilsunuddnema í FSH sem koma í skólann frá hádegi á föstudegi og er kennt fram á miðjan dag á sunnudegi aðra hverja helgi. Fjöldi staðlotna ræðst af umfangi áfanganna hverju sinni.

Hér má sjá skipulag staðlotna fyrir skólaárið 2023-2024.

Hér má finna brautalýsingu.