Móttaka grunnskólanema

Námsgreinar
Námsgreinar sem um ræðir eru einkum íslenska, enska og stærðfræði en geta einnig verið fleiri greinar.

Inntökuskilyrði
Inntökuskilyrði eru að nemandinn hafi lokið grunnskólaprófi í þeirri námsgrein sem sótt er um með skólaeinkunnina B að lágmarki. Einkunnir nemanda sem liggja til grundvallar umsókn þurfa að berast skólanum.

Umsóknarferli
Sótt er um nám með því að fylla út eyðublað sem finna má HÉR en einnig á stikunni til vinstri. Prenta skal eyðublaðið út og skila til stjórnenda FSH. Umsóknir þurfa að berast áður en kennsla hefst á þeirri önn sem sótt er um. Æskilegt er að umsóknir um nám á haustönn berist fyrir 20. júní en fyrir nám á vorönn er æskilegt að umsóknir berist fyrir 31. nóvember. Eyðublaðið skal undirritað af nemandanum sem um námið sækir, foreldrum/forráðamönnum hans og skólastjóra grunnskóla sem staðfestir að nemandinn hafi náð fullnægjandi árangri í þeirri grein/greinum sem um ræðir. Foreldri/forráðamaður skal sjá um að koma bréfinu til stjórnenda FSH.

Samstarf við grunnskóla
FSH og Borgarhólsskóli hafa samráð til að nemandi geti mætt í sem flestar kennslustundir í þeirri námsgrein sem hann stundar í FSH.

Stundi nemandi nám í grunnskóla utan Húsavíkur er nauðsynlegt að grunnskólinn veiti nemandanum stuðning í þeirri framhaldsskólagrein sem sótt er um. Óskað er eftir því að grunnskólinn skili FSH stuttri greinargerð þar sem fram kemur í hverju sá stuðningur felst, hver sinnir honum og menntun í grein(um) sem um ræðir. Sá sem sér um stuðninginn þarf að vera í samstarfi við kennara FSH um námið og námsframvindu.

Skólasetning
Hefji nemandi nám að hausti fær nemandi kynningu á skólakerfinu Innu, Kennsluvefnum (Moodle) og fleiri hagnýtum atriðum á skólasetningu. Mikilvægt er að nemendur (og helst foreldrar/forráðamenn) mæti á skólasetninguna þrátt fyrir að hún fari fram áður en kennsla hefst í grunnskólanum. Skólasetning er auglýst á heimasíðu FSH og í fréttablaðinu Skránni. Hefji nemandi nám á vorönn fær nemandi ofangreindar upplýsingar í fyrsta umsjónartíma við upphaf annar. Nemendur sem stunda fjarnám fá hagnýtar upplýsingar sendar í tölvupósti.