Fjarnám

Gjaldskrá        Námsbrautir      Áfangar í boði á haustönn 2018

Innritun
Best er að skrá sig í fjarnám með því að senda póst á netfangið halldor@fsh.is eða hringja á skrifstofu skólans í s. 464-1344. Tekið er við skráningum í fjarnám á haustönn 2018 fram til 20. ágúst 2018.

 • nafn
 • kennitala
 • virkt netfang
 • heimasími
 • farsími
 • heimilisfang
 • hvaða áfanga viðkomandi vill taka (eða hversu marga áfanga ef viðkomandi hefur ekki sérstaka áfanga í huga)

Einnig má þó skrá sig í Fjarnám í gegnum vefsíðu Menntagáttar.

Markmið
Markmiðið með því að bjóða upp á fjarnám er að gefa sem flestum kost á að stunda framhaldsnám óháð staðsetningu og tíma.

Námsfyrirkomulag

 • Fjarnám í FSH er að mestu leyti nám á netinu og eru áfangar settir upp á kennsluvefnum Moodle.
 • Boðið er upp á alla áfanga á stúdentsbrautum í fjarnámi, fyrir utan íþróttir.  Fjarnemar geta uppfyllt einingar í íþróttum með því að taka aðra áfanga, vilji þeir útskrifast af einhverri þeirra námsbrauta sem í boði eru í skólanum.
 • Ekki er sett hámark á einingafjölda sem hægt er að taka á hverri önn, en bent er á að í nýrri námskrá samsvarar hver eining 18-24 klst. vinnu yfir önn.
 • Námið er fyrst og fremst hugsað sem sjálfsnám undir handleiðslu kennara.  Það krefst mikils aga og skipulagningar af hálfu nemenda og kennara.  Sjálfsagi er mikilvægur þar sem fjarnám er að hluta til sjálfsnám og ekki er hægt að fá svör frá kennurum um leið og spurningar vakna.  Það er því mikilvægt að lesa allar leiðbeiningar vel, hafa tímasetningar í heiðri og leysa öll verkefni, sem fyrir eru lögð.  Vakni spurningar, sem ekki eru svör við í námsumhverfinu (kennsluvefnum), er hægt að senda fyrirspurn til kennara og ber honum að svara eigi síðar en annan virkan dag.
 • Athygli er vakin á því að fjarnemum er heimilt að sækja tíma ef og þegar þeir geta.
 • Að öðru jöfnu er fjarnám þó ekki ætlað nemendum í hefðbundnu dagskólanámi.

Samskipti
Samskipti við kennara fara fram í Moodle og tölvupósti. Í Moodle er að finna námsáætlanir, verkefni, próf og fleira, sem máli skiptir í náminu.  Enn fremur eiga nemendur þess kost að hitta kennara eftir nánara samkomulagi þar um. Slíkir fundir eru þó ekki ætlaðir til einkakennslu.

Námsefni
Bókalista fyrir haustönn 2018 má finna HÉR.

Nemendur þurfa að:

 • hafa daglegan aðgang að internettengdri tölvu með vafra, sem les Moodle umhverfið án vandkvæða.
 • hafa lágmarkskunnáttu í tölvunotkun, þ.m.t. ritvinnslu.
 • hafa nokkra æfingu í að nota veraldarvefinn og í framhaldi af því að geta tileinkað sér að vinna í Moodle kennsluumhverfinu.  Þar eru m.a. bókalistar, námsáætlanir, verkefni, gagnvirk próf og ítarefni allra áfanga, sem kenndir eru í fjarnámi hverju sinni.
 • hafa tíma til að stunda námið. 

Mat á fyrra námi
Fjarnemendur sem óska eftir mati á fyrra námi skulu hafa samband við aðstoðarskólameistara.

Fyrstu skrefin

 • Þegar heimsendur greiðsluseðill hefur verið greiddur eru aðgangs- og lykilorð að Kennsluvefnum (Moodle) og netkerfi skólans send í pósti ásamt leiðbeiningum um að komast inn í kerfið og inn í áfangana. Nemendur sjá sjálfir um að skrá sig í áfanga á Kennsluvefnum.  Þegar því er lokið er nemandinn kominn inn á það svæði, þar sem samskiptin við kennarann fara að mestu leyti fram.  Þessu ferli ætti að vera lokið áður en kennsla hefst.  Nemendur, sem skrá sig í fjarnám eftir að kennsla hefst ættu að vera komnir með aðgang eftir tvo virka daga frá því að greiðsla berst.
 • Allir fjarnemar fá netfang hjá skólanum sem notað er til að eiga samskipti við kennara á skype og fleira.
 • Allir fjarnemar fá aðgang að Onedrive þar sem hægt er að geyma gögn og deila á milli nemenda og kennara. Onedrive gerir nemendum kleift að nálgast gögnin sín hvar sem er.
 • Allir fjarnemar (sem og aðrir nemendur skólans) geta fengið ókeypis Office-pakka en hann inniheldur Word, Excel, PowerPoint, Skype for Business og margt fleira.
 • Ef nemandi, sem skráður er í fjarnám og hefur greitt fyrir það, hefur ekki samband við kennara fyrstu þrjár kennsluvikur annarinnar og lætur ekki vita af sér að öðru leyti áskilur Framhaldsskólinn á Húsavík sér rétt til að skrá viðkomandi nemanda úr námi ef frekari eftirgrennslan hefur reynst árangurslaus.

Námið

Verklagsreglur kennara

 • Kennari á að setja fram námsáætlun, sem inniheldur m.a. markmið áfangans og áætlaða yfirferð. Það er í höndum hvers kennara hversu nákvæm áætluð yfirferð er.
 • Kennari á að hafa samband við fjarnemendur reglulega. og sinna leiðsagnarmati.
 • Kennara ber að setja námsefni fram á aðgengilegan hátt og leitast við að útskýra það fyrir nemendum á eins skýran hátt og honum er unnt. Einnig skal hann vísa nemendum á hvar ítarefni er að finna, fari hann út fyrir námsefnið eins og það er í aðalkennslubók(um) áfangans.
 • Kennari á að meta frammistöðu nemenda fyrir skil á verkefnum með einkunnum og/eða skriflegum umsögnum, sem fela í sér leiðréttingar, leiðbeiningar og útskýringar.
 • Kennari á að svara fyrirspurnum nemenda innan tveggja virkra daga. Kennari skal þó hafa lengri tíma ef um stærri verkefni/ritgerðir er að ræða. Ef kennari metur ekki verkefni strax skal hann gera nemendum ljóst hvenær þeir eiga von á námsmati.

Verklagsreglur fjarnema

 • Nemanda ber að lesa námsáætlun ítarlega í upphafi.
 • Nemanda ber að fara inn á Kennsluvefinn (Moodle) eins oft og kennarinn leggur til og helst ekki sjaldnar en vikulega.
 • Nemandi á að virða þær reglur, sem kennari setur um verkefnaskil.
 • Nemandi á að láta kennara vita ef hann getur ekki skilað verkefni á tilsettum degi og biðja þá um frest.  Athygli er vakin á því að ekki er hægt að biðja um frest eftir að auglýstur lokafrestur er liðinn. Kennara ber ekki að veita lengri skilafrest en geri hann það er sá frestur endanlegur.
 • Nemandi á að láta kennara og aðstoðarskólameistara vita ef hann ætlar að hætta námi í áfanganum.
 • Nemendur eru hvattir til að senda fyrirspurnir til kennara í tölvupósti eða í gegnum Kennsluvefinn (Moodle).
 • Tæknilegum vandamálum svarar skrifstofa skólans, sími 464-1344.

Námstími - lokapróf

 • Haustönn er frá miðjum ágúst fram að jólum. Vorönn er frá janúarbyrjun til maíloka.
 • Lokapróf fara fram í Framhaldsskólanum á Húsavík samhliða öðrum prófum í desember og maí.
 • Prófastaðir fjarnema geta verið aðrir en í FSH.  Þegar líður að prófum hefur aðstoðarskólameistari samband við þá til að grennslast fyrir um hvar þeir óska eftir að taka prófin.  Aðstoðarskólameistari hefur svo samband við þá skóla, þar sem nemendur óska eftir að taka prófin.  Nemendur sem staddir eru erlendis skulu hafa samband við næsta sendiráð, konsúl eða skóla, sem er tilbúinn að aðstoða þá.  Þar þarf að útvega ábyrgðarmann, sem tekur við prófum í tölvupósti, leggur þau fyrir og sendir úrlausnir til baka.  Sama gildir um nemendur, sem eru á sjó á prófatíma en í þeim tilvikum getur t.d. skipsstjóri verið ábyrgðarmaður.
 • Prófareglur FSH gilda á öllum prófstöðum eftir því sem við á. Veikindi skal tilkynna bæði til skrifstofu FSH og ábyrgðarmanns á prófstað ef hann er annar.