Skólafundur um ofbeldi.

 

Miðvikudaginn 16. nóvember síðastliðinn, á degi íslenskrar tungu, var haldinn árlegur skólafundur í Framhaldsskólanum á Húsavík. Að þessu sinni var umræðuefnið ofbeldi. Ofbeldi og hinar ýmsu birtingarmyndir þess hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, hvort sem það er í fréttum eða á samfélagsmiðlum.

Nemendur og starfsfólk skólans komu saman á sal. Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari setti fundinn, Friðrika Bóel Ödudóttir flutti ljóð. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynjafræðikennari við Borgarholtsskóla, flutti erindi fyrir nemendur og starfsfólk. Hanna fór um víðan völl og ræddi hinar ýmsu birtingamyndir ofbeldis og þá sérstaklega kynferðisofbeldi. Að því loknu fóru nemendur í hópa þar sem þeir unnu með spurningar upp úr erindi Hönnu.

Það er ljóst að við eigum frábært ungt fólk sem er óhrætt að ræða hlutina og takast á við málefni líðandi stundar.