Nýnemaferðin í ár

Í byrjun síðustu viku var farið í hina árlegu nýnemaferð FSH þar sem öllum staðnemum við skólann stóð til boða að koma með. Stjórn nemendafélagsins NEF skipulagði ferðina þar sem áherslan var á að hafa gaman saman hluta úr degi og efla hópinn.

Farið var á rútu að Fljótsbakka þar sem keppt var í fótboltagolfi í liðum. Síðan var brunað inn á Akureyri í Kjarnaskóg þar sem boðið var upp á hressingu og strandblak. Snemmbúinn kvöldverður var tekinn á Greifanum, þar sem tekið var á móti mannskapnum með vel hlöðnu pítsuhlaðborði, frönskum og gosi. Ferðin endaði svo í Sjóböðunum á Húsavík, sem bauð nemendum frímiða.

Veðrið lék við mannskapinn og var ferðin frábær í alla staði.

Einstaklega frábær hópur af nemendum – öll til fyrirmyndar í ferðinni og við í FSH hlökkum til að vinna með þeim í vetur!