Síðastliðinn föstudag afhenti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands verðlaun vegna Forvarnardagsins, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Daníel Snær Lund, Gunnar Hólm Guðmundsson og Heimir Örn Karolínuson, nemendur Framhaldsskólans á Húsavík, hlutu verðlaun í flokki verkefna hjá framhaldsskólum. Heimir og Gunnar kynntu verkefnið fyrir forseta lýðveldisins og öðrum viðstöddum á Bessastöðum.
Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Nemendum gefst kostur á að taka þátt í verðlaunaleik þar sem þau vinna með þá þætti sem geta dregið úr áhættuhegðun.
Nemendur í lífsleikni á fyrsta ári í FSH tóku þátt þar sem þeir unnu með þemað „Skjárinn, síminn, samfélagsmiðlar“- hvernig er hægt að takast á við þær áskoranir.
Heimir Örn, Daníel Snær og Gunnar Hólm sömdu texta og fengu gervigreind til að syngja lag og uppskáru sigur. Við óskum þeim innilega til hamingju!

