HACKING NORÐURLAND - VILTU VERA FRUMKVÖÐULL YFIR EINA HELGI?

Eimur, SSNV, SSNE og Nýsköpun í norðri í samstarfi við Hacking Hekla, Nordic Food in Tourism og Íslandsbanka bjóða skapandi heimamönnum á Norðurlandi að verja helgi sem frumkvöðlar og vinna að hugmyndum og verkefnum sem “uppfæra” svæðið. Sigurteymi Hacking Norðurland hlýtur peningaverðlaun.

Hakkaþon eða lausnamót, er nýsköpunarkeppni þar sem fólk kemur saman og skapar lausnir yfir stuttan tíma - venjulega um 24-48 klukkustundir. Lausnamót eru frábær vettvangur fyrir hvern sem er til að deila reynslu og þekkingu og vinna að viðskiptahugmynd eða verkefni.

Hacking Norðurland er lausnamót sem fer fram dagana 15.-18. apríl næstkomandi á Norðurlandi. Unnið verður með sjálfbæra nýtingu auðlinda svæðisins með tilliti til matar, vatns og orku. Markmið lausnamótsins er að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum verkefnum og viðskiptatækifærum. Lausnamótinu er ekki síður ætlað að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Norðurlandi. Útkoman úr lausnamótinu getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður eða markaðsherferð. Hacking Norðurland er samstarfsverkefni Hacking Hekla, Eims, Nordic Food in Tourism, SSNE, SSNV og Nýsköpun í norðri. Íslandsbanki styrkir verkefnið.

Nánar um verkefnið hér.