Fyrsta græna skrefið

Framhaldsskólinn á Húsavík hóf vegferð sína í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri sl. haust. Þann 24. nóvember 2020 lauk skólinn fyrsta skrefi af fimm og fékk það formlega vottað og viðurkennt af Umhverfisstofnun.

Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa tekið þátt í að aðlaga verkefnið að ríkisrekstri. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi stofnana og draga úr kostnaði, sóun og mengun. Sjá nánar hér: http://graenskref.is/um-verkefnidh

Tengiliðir verkefnisins í Framhaldsskólanum á Húsavík eru kennararnir Elín Rúna Backman og Valdimar Stefánsson, sem bæði eru mjög áhugasöm og brenna fyrir þessu verkefni og loftslags- og umhverfismálum heilt yfir.

Guðrún Reynisdóttir, húsvörður sér um innkaup á vörum til þrifa og Arna Ýr Arnarsdóttir, fjármálastjóri sér um grænt bókhald og innkaup á almennum rekstrarvörum. Þær vinna þær verkefnið í sameiningu við tengiliði skólans.

Mikilvægt er að gott samstarf ríki innan stofnunarinnar við að vinna markvisst að þessu verkefni saman og allir leggi sitt af mörkum.