Brautskráning 2020.

Útskriftarnemar ásamt skólameistara og aðstoðarskólameistara.
Útskriftarnemar ásamt skólameistara og aðstoðarskólameistara.

Aðstæður voru um margt óvenjulegar þegar 18 nemendur voru útskrifaðir frá Framhaldsskólanum á Húsavík síðastliðinn laugardag, 23. maí. Fjöldatakmarkanir gerðu það að verkum að einungis útskriftarnemar og nánasta fjölskylda gat verið viðstödd ásamt skólameistara og aðstoðarskólameistara. Háttíðarræður fluttu Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari, Halldór Jón Gíslason aðstoðarskólameistari og Steinarr Bergsson nýstúdent. Athöfninni var streymt á facebook síðu skólans og fylgdist fjöldi manns með athöfninni í gegnum vefinn.

Fjöldi fyrirtækja og samtaka komu að því að veita nemendum gjafir fyrir góðan námsárangur og félagsstörf. Páll Vilberg Róbertsson útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi að þessu sinni. Fyrir það hlaut hann bókagjöf frá Framhaldsskólanum á Húsavík og gjafabréf frá Þekkingarneti Þingeyinga.

Starfsfólk skólans tók svo á móti nemendum og klappaði fyrir þeim þegar þeir komu út úr kirkjunni. Við, starfsfólk Framhaldsskólans á Húsavík óskum útskriftarnemum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með áfangann.