Bardagamaður í heimsókn

Nemendur ÍSLE2BÓ05(21) lesa Brennu-Njáls sögu um þessar mundir þar sem Gunnar á Hlíðarenda stendur í ströngu. Til að nemendur fengju aðeins innsýn vopnaburð og bardagahætti sögunnar kom Daði Jóhannesson, bardagamaður, í heimsókn í morgun. Daði hefur smíðað vopn eftir heimildum og tekið þátt í sviðsettum bardögum.

Daði kom í hefðbundnum klæðnaði sögualdar og hafði yfir sig hringabrynju. Hann hafði einnig með sér skjöld, sverð og litla öxi. Hann sýndi nemendum hvernig fólk hefur barist og hvernig vopnin voru búin til og hver höfðu efni á að smíða þau. Hér er talað í hvorugkyni því vísbendingar eru um að konur hafi einnig barist í heiðni þótt kristnir sagnaritarar útiloki þær. Þá teiknaði Daði upp fyrir okkur Rimmugýgi Skarphéðins og hvernig álitið er að atgeir Gunnars hafi litið út. Fengu nemendur aðeins að handleika vopnin (og gekk sprittbrúsinn með) og finna hversu þung hringabrynja er.

Þetta var skemmtilegt uppbrot í kennslunni og þökkum við Daða kærlega fyrir komuna.