Áríðandi upplýsingar til nemenda

Kæru nemendur

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin til náms í skólanum ykkar, Framhaldsskólanum á Húsavík.

Skólinn hefst mánudaginn 24. ágúst kl 08.10 samkvæmt stundaskrá hjá dagskólanemendum.

Eins og þið öll vitið, er skólastarf með öðrum hætti nú vegna Covid-19. Allir verða að gæta þess að halda 1 metra fjarlægð við næsta mann og þvo og sótthreinsa reglulega hendur.

Undanfarna daga hafa starfsmenn skólans undirbúið komu ykkar og skipulagt skólastarfið. Borðum er raðað upp þannig að 1 metra reglan er virt.

Við notum annan innganginn í skólann til að koma inn í skólann og hinn til að fara út. Búið verður að setja línur og örvar á gólfin, sem skipta göngum og stigum í tvennt og sýna hvoru megin á að ganga inn og hvoru megin út aftur. Þið farið ekki úr útiskónum og yfirhöfnum eins og verið hefur. Allir eru nú inni á útskónum og með yfirhafnir hjá sér í skólastofunni.

Þegar þið komið í skólann, er mjög mikilvægt að koma ekki í hópum og fara beint að stofunni sem þið eigið að vera í hverju sinni. Fyrir framan stofuna er sótthreinsispritt, sem þið notið til að sótthreinsa hendurnar. Inni í stofunni er sótthreinsiefni og bréf sem þið notið til að sótthreinsa borðin ykkar. Þeir sem koma fyrstir inn fara í öftustu sætin og þeir sem koma seinna í næst öftustu röð og þannig koll af kolli.

Þar sem þið getið ekki fengið að kaupa hádegismat í Borgarhólsskóla núna, er hádegismatarhlé 50 mínútur, svo þið getið farið heim í mat.

Samkvæmt fyrirmælum frá stjórnvöldum, mega nemendur ekki vera á göngunum, sem eru einungis til að fara milli stofa, meðan þetta ástand varir. Nemendur eiga að vera í sinni stofu í frímínútum, sem nú hafa verið styttar í 5 mínútur og í samliggjandi tímum eru engar frímínútur. Þegar nemendur eru í eyðum í stundaskrá þurfa þeir að yfirgefa skólahúsið, eins og í hádegishléi sem er frá kl. 11.10-12.00.

Á morgun, föstudaginn 21. ágúst, fá dagskólanemendur senda stundatöflu í tölvupósti. Stundaskráin er einnig aðgengileg í Innu. Sama dag kemur Húslestur líka inn á nýju heimasíðuna okkar www.fsh.is og þar eru ítarlegar upplýsingar fyrir ykkur. Ítrekað skal að að nemendum er kennt hér alla virka daga vikunnar.

Við vonum sannarlega að okkur takist öllum að vinna sameiginlega að því, að þið getið stundað ykkar nám við öruggar aðstæður og að veiran sem við erum að berjast gegn, muni ekki ná að smeygja sér til okkar. Við treystum því að þið vinnið með okkur við að vernda ykkur og okkur, það er allra hagur og undirstaða okkar heilbrigðis.

 

Með kærum kveðjum,

Valgerður og Halldór