Stefna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi

Stefna Framhaldsskólans á Húsavík (FSH) er að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi og ótilhlýðileg háttsemi sé ekki liðin, hvorki í samskiptum meðal starfsfólks, samskiptum starfsfólks við nemendur, samskiptum milli nemenda eða í samskiptum við aðra einstaklinga sem sækja eða veita þjónustu í FSH.

Leita skal allra ráða til að fyrirbyggja slíkt og leysa þau mál sem upp koma á sem farsælastan hátt. Í skólanum skal lögð áhersla á að efla vitund starfsfólks og nemenda um mikilvægi jákvæðra samskipta og gera þau einkennandi í skólasamfélaginu, t.d. með fræðslu um jafnrétti.

Viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi eru nánar skilgreind í viðbragðsáætlun við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi.

Í FSH er lögð áhersla á góðan starfsanda, þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni milli allra, bæði starfsfólks og nemenda. Þessum aðilum ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og jákvætt viðmót.

Allir á vinnustaðnum, bæði nemendur og starfsfólk, þurfa að leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja neikvæða hegðun og stuðla að góðum samskiptum, starfsánægju og öruggu umhverfi. Því er mikilvægt að láta vita ef upp koma mál sem taka þarf á.

Upplifun einstaklingsins skiptir meginmáli þegar rætt er um einelti og aðra ótilhlýðilega hegðun. Sérhver þolandi verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber, frá hverjum og segja frá sé honum misboðið.

Stefna þessi er sett á grundvelli 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Við FSH er starfandi viðbragðsteymi sem samanstendur af náms- og starfsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðingi, skólameistara (eða staðgengli hans) og öryggistrúnaðarmaður.

1. Markmið

Stefna þessi er sett fram til að skýrt sé hvernig brugðist er við aðstæðum þar sem einstaklingur eða hópur telur sig verða fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað af hendi starfsfólks eða nemenda.

2. Skilgreiningar á hugtökum

Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáningar þess sem fyrir henni verður. Einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.

Rafrænt einelt: Er sú tegund eineltis þar sem Internetið, GSM símar og önnur snjalltæki eru notuð til að koma á framfæri niðrandi og ærumeiðandi upplýsingum um einstakling.

Önnur ótilhlýðileg háttsemi: Getur meðal annars falist í lítilsvirðandi framkomu, klámfenginni háttsemi eða snertingu sem þykir nærgöngul eða óviðeigandi.

Meintur þolandi: Sá sem telur sig verða fyrir einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilegri háttsemi.

Meintur gerandi: Sá sem kvörtun um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi eða ótilhlýðilega háttsemi beinist að.

Skoðanaágreiningur milli einstaklingar eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki undir neitt af ofangreindu.

3. Vísbendingar um einelti:
Áríðandi er að allir sem að skólasamfélaginu koma þekki einkenni eineltis. Þannig má betur grípa inn í, kanna málið og hafa samband við viðbragðsteymi eineltismála við FSH.

Dæmin hér að neðan sýna vísbendingar sem gefið gætu til kynna að einstaklingur sé lagður í einelti:

Starfsfólk

  • grafið er undan trausti á faglegri hæfni starfsmanns eða frammistöðu hans
  • starfsmaður er hafður undir stöðugu eftirliti og markvisst leitað að mistökum hans
  • starfs- eða verkefnatengdum upplýsingum er haldið frá starfsmanni
  • geðþóttakenndar breytingar eru gerðar á verksviði starfsmanns
  • ábyrgð er tekin af starfsmanni án þess að ræða það við hann
  • gagnrýni er látin í ljós á niðrandi eða neikvæðan hátt í viðurvist annarra
  • vilji samstarfsmanna til aðstoðar er lítill.
  • starfsmaður er markvisst sniðgenginn og útilokaður frá starfshópum og félagslífi
  • baktal og slúður
  • starfsmenn skemmta sér á kostnað eins
  • niðrandi athugasemdir eða dylgjur
  • endurteknar skammir
  • endurtekin stríðni.

Nemendur

  • tekur ekki þátt í hópastarfi og er oft útundan
  • er mikill einfari og virðist standa utan við hópinn í kennslustundum
  • verður fyrir aðkasti og/eða skopi af hálfu samnemenda og/eða kennara
  • lýsir andúð á skólanum og/eða dregur úr skólasókn, einkunnir lækka
  • sýnir minnimáttarkennd eða minnkað sjálfsálit
  • virðist kvíðinn, þunglyndur, niðurdreginn eða óhamingjusamur
  • virðist óttasleginn eða sýnir örvæntingu
  • sýnir miklar skapsveiflur og/eða er erfiður viðureignar
  • virðist bitur eða í hefndarhug
  • neitar að segja frá hvað amar að.

4. Gildissvið
Stefnan nær yfir starfsfólk og nemendur FSH og einstaklinga sem koma tímabundið til starfa eða starfa sem verktakar í skólanum sem og nemendur og starfsmenn fyrirtækja og/stofnana sem eiga í samskiptum við skólann.

Stuðst verður við viðbragðsáætlun FSH við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi í öllum þeim tilvikum þar sem grunur er um einelti.

4.1 Skyldur starfsfólks
Það er hlutverk alls starfsfólks að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni, ofbeldi og aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað. Mikilvægt er að starfsfólk sýni samkennd og sé vakandi gagnvart allri slíkri háttsemi. Starfsfólk FSH á að þekkja gildi skólans, virða stefnu þessa, vera meðvitað um hegðun sína og stuðla að því að tekið sé á allri ótilhlýðilegri háttsemi sem og öðrum ágreiningsmálum.

Starfsfólki er óheimilt að leggja annað starfsfólk í einelti, áreita það eða beita það ofbeldi. Starfsmaður skal tilkynna til einhvers aðila í viðbragðsteymi skólans telji hann sig hafa orðið fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun í skólanum.

Hafa ber í huga að einstaklingur getur verið ómeðvitaður um að hegðun hans sé óviðeigandi. Því er mikilvægt að starfsfólk setji mörk og geri grein fyrir því ef því líkar ekki framkoma í eigin garð.

4.2 Skyldur stjórnenda
Stjórnendur skulu ganga á undan með góðu fordæmi og sýna starfsfólki og nemendum tillitssemi, virðingu og umburðarlyndi, stuðla að góðum starfsanda í skólanum, fylgjast með samskiptum starfsfólks og nemendum og taka á ágreiningsmálum. Viðbrögð skulu vera markviss og lausnamiðuð. Stjórnendur skulu vinna að því að tryggja gott vinnuumhverfi og sjá til þess að samskipti í skólanum séu í samræmi við stefnu hans.

Stjórnendur skulu í samstarfi við viðbragðsteymi skólans bregðast við í samræmi við viðbragðsáætlun FSH ef kvörtun eða ábending berst um einelti, áreitni eða ofbeldi. Þeir skulu sýna varfærni, nærgætni og trúnað í öllum aðgerðum.

4.3 Skyldur nemenda
Nemendum er óheimilt að leggja nemendur og starfsfólk í einelti, áreita það eða beita það ofbeldi. Nemandi skal tilkynna til skólameistara (eða staðgengils hans) eða viðbragðsteymis telji hann sig hafa orðið fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun í skólanum.

Nemendur bera ábyrgð á háttsemi og samskiptum við samnemendur og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun, og skulu sýna nærgætni og gæta virðingar í allri framkomu sinni.

Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur.

5. Framkvæmd
Nýjum starfsfólki og nemendum skal kynnt stefna þessi og viðbragðsáætlun um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi strax við upphaf starfs/skólagöngu. Stefnan og viðbragðsáætlun skulu rifjaðar upp reglulega á starfsmannafundum og meðal nemenda. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi er ekki liðið í FSH en jafnframt verður tekið á fölskum ásökunum um einelti, áreitni eða ofbeldi. Ef yfirmaður fær vitneskju um einelti, áreitni eða ofbeldi skal hann bregðast við í samræmi við viðbragðsáætlun.

Viðbragðsáætlun FSH er virkjuð ef starfsfólk/nemendur leggja aðra í einelti, beita áreitni eða ofbeldi. Meintur gerandinn verður látinn axla ábyrgð. Þörf þolanda fyrir stuðning er metin og stuðningur veittur eftir því sem þörf krefur.

Leiði mat á aðstæðum til þess að meint einelti, áreitni eða ofbeldi eigi sér ekki stað eða hafi ekki átt sér stað á vinnustaðnum skal samt sem áður grípa til aðgerða í því skyni að uppræta þær aðstæður sem kvartað var yfir eða bent var á, sem og í því skyni að koma í veg fyrir að aðstæðurnar komi upp aftur.

6. Forvarnir
Lykilþáttur í forvörnum gegn einelti er ríkuleg áhersla á jákvæð samskipti á milli allra sem að skólanum koma og hafa skýra stefnu um að einelti sé ekki liðið. Það er því mikilvægt að efla vitund allra í skóla-samfélaginu um jákvæð samskipti og að þau séu einkennandi í öllu starfi skólans.

Í FSH er lögð áhersla á að:

  • umræður og verkefni um jákvæð samskipti séu eðlilegur hluti af skólastarfi
  • efla og viðhalda vitund allra aðila um mikilvægi jákvæðra samskipta, m.a. með því að starfsfólk haldi uppi umræðu um og hvetji til jákvæðra samskipta
  • skólinn sé eftirsóttur vinnustaður fyrir nemendur og starfsfólk, m.a. með því að viðhalda hlýlegu og hvetjandi andrúmslofti þar sem gagnkvæm virðing er ríkjandi og mannréttindi í hávegum höfð
  • stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum og heilbrigðu félagslífi m.a. með því að skapa tækifæri og svigrúm til að sinna eigin heilsu og félagslífi sem og halda uppi umræðu um mikilvægi heilbrigðis
  • vinna að því að skapa öruggt vinnu- og námsumhverfi, m.a. með því að starfsfólk og nemendur séu vakandi fyrir einelti og öðrum neikvæðum samskiptum og bregðist við á viðeigandi hátt.

Heimildir

ASÍ,BHM,BSRB,KÍ,Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa.( e.d.) Áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Sótt af https://www.bhm.is/media/adalfundir_bhm_safn/Kynbundin-og-kynferdisleg-areitni-og-ofbeldi-a-vinnustodum----Baeklingur.pdf

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Ása Guðbjörg Ásgeirsdóttir og Þóra Magnea Magnúsdóttir (umsjón):

Einelti og kynferðisleg áreitni á vinnustöðum. Forvarnir og viðbrögð. Vinnueftirlitið. Reykjavík, 2004 https://www.bhm.is/media/adalfundir_bhm_safn/Kynbundin-og-kynferdisleg-areitni-og-ofbeldi-a-vinnustodum----Baeklingur.pdf

Helga Lind Pálsdóttir. (2011). Rafrænt einelti -skilningur og þekking unglinga. Sótt af https://skemman.is/bitstream/1946/10354/1/MA-2011- Helga%20Lind%20P%C3%A1lsd%C3%B3ttir.pdf

Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (svokölluð verndarlög) nr. 46/1980.

Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Reglugerð nr. um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr.1009/2015.

Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum nr. 326/2016 https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/326-2016

Samtök atvinnulífsins (2017). Stefna og viðbragðsáætlun samtaka atvinnulífsins gegn einelti,kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Sótt af http://www.sa.is/media/2893/stefna-og-vidbragdsaaetlun-sa-gegn-einelti-kynferdislegri-og-kynbundinni-areitni-og-ofbeldi-2017-til-birtingar.pdf

Sveitarfélagið Skafafjörður. (2017,nóv.). Stefna og viðbragðsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni. Sótt af https://www.skagafjordur.is/static/files/Samtykktir/2017/stefna-og-vidbragdsaaetlun-vegna-einelti-areitni-og-ofbeldis-a-vinnustad.pdf

Tækniskólinn. (2018). Viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi. Reykjavík

Tækniskólinn. (2018). Stefna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi. Reykjavík

Vinnueftirlitið. (e.d.). Viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. (e.d.) Sótt af http://www.vinnueftirlit.is/vinnuvernd/adbunadur/einelti-areitni-ofbeldi/

 

Júní 2018

Síðast uppfært: nóvember 2023