ÍÞRÓ1GL01(21) - Grunnþættir í almennri líkams- og heilsurækt 2

grunnþættir í almennri líkams- og heilsurækt

Einingafjöldi: 1
Þrep: 1
Forkröfur: ÍÞRÓ1GL03(11)
Áfanginn er bæði verklegur og bóklegur. Áhersla er lögð á lífstílsbreytingar. Í verklega hlutanum er lögð áhersla á grunnþætti þols, styrktaræfingar og liðleika. Við þjálfun þols eru fjölbreyttar aðferðir notaðar, s.s. útihlaup/ganga, þrektæki, stöðvaþjálfun, leikir og fjölbreyttar íþróttagreinar. Í styrktarþjálfun eru ýmsar æfingar notaðar, s.s. æfingar með eigin líkamsþyngd og lyftingar í tækjasal. Við þjálfun liðleika er áhersla lögð á teygjuæfingar í lok æfinga. Við þjálfun allra framangreindra þátta er leitast við að miða æfingar við áhuga og getu hvers nemanda. Í bóklega hlutanum er fjallað um heilsu og heilbrigðan lífsstíl. Nemendur fræðast um líkamleg og sálræn áhrif reglulegrar og skipulegrar líkamsþjálfunar og ábyrgð einstaklingsins á eigin líkama. Fjallað er um markmiðssetningu, bæði til lengri og skemmri tíma, þar sem nemendur gera eigin þjálfunaráætlun í samræmi við þau markmið sem þeir setja sér. Þjálfunaráætlunin byggir á þeirri þekkingu sem nemendur hafa aflað sér um þol, styrk og liðleika í fyrri íþróttaáfanga. Áfram er fjallað um mikilvægi hreyfingar hjá öllum aldurshópum, sérstaklega hjá fólki á framhaldsskólaaldri. Fjallað er um þrjú algengustu þjálfunarformin; þol, styrk og liðleika, og hinar ýmsu þjálfunaraðferðir innan hvers forms ræddar. Rætt er um uppbyggingu hreyfingarlotu með áherslu á áhrif upphitunar og niðurlags á líkamann. Fjallað er um áhrif vímuefna á heilsu og líkamlegt form einstaklinga. Í áfanganum er jafnframt unnið áfram með verkefnið „Heilsumarkmiðin mín“ sem byrjað var á í ÍÞRÓ1GL03(11).

Þekkingarviðmið

 • alhliða líkams- og heilsurækt
 • æfingum og leikjum sem viðhalda og bæta tækni íþróttagreina
 • styrkjandi og mótandi æfingum fyrir helstu vöðva og liðamót líkamans
 • skipulagningu eigin þjálfunar
 • forsendum og áhrifum þjálfunar á eigin líkama og heilsu
 • orkuefnunum kolvetni, próteinum og fitu
 • heilsusamlegu mataræði
 • heilbrigðum svefnvenjum fyrir sinn aldurshóp
 • áhrifum lífsstíls á heilsu á andlega og líkamlega sjúkdóma
 • uppbyggingu æfinga og tímaseðla.

Leikniviðmið

 • nýta sér ýmsar leiðir til að stunda styrktarþjálfun, þolþjálfun og bæta liðleika sinn
 • halda áfram SMART-markmiðssetningu í tengslum við hreyfingu, mataræði, svefnvenjur og andlega líðan eftir því hvað á við um hann sjálfan.

Hæfnisviðmið

 • greina hvaða þættir í eigin lífsstíl hafa áhrif á andlega og líkamlega heilsu og breyta eigin lífsstíl ef þörf er á
 • sýna frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum sem varða þjálfun á eigin líkama
 • bæta eða viðhalda þoli, liðleika og styrk
Nánari upplýsingar á námskrá.is