Fjölbreytt lokaverkefni nemenda í samfélagsgreinum

Næstkomandi laugardag er útskrift í Framhaldsskólanum á Húsavík og eru fjölmörg lokaverkefni unnin í áföngum FSH við skólalok. Nemendur í aðferðafræði og félagssálfræði hafa undanfarnar vikur verið að leggja lokahönd á sín lokaverkefni.

Fjölbreytnin í verkefnum og framsetningu verkefna var mikil þetta árið – Rannsóknarhlaðvörp, skýrslur, myndbönd, leikþættir, framsaga og greinagerðir eftir viðtöl, kannanir, innihaldsgreiningar, og vettvangsathuganir.

Nemendur í aðferðafræði notuðu eigindlega rannsóknaraðferð við að kynnast störfum og viðhorfum hjúkrunarfræðinga, sjúkraflutingafólks, skiptinema, lögreglumanna og barnfóstrun erlendis. Helsta markmiðið með lokaverkefninu var að læra sjálfstæð og öguð vinnubrögð, taka ábyrgð á eigin vinnu, sýna frumkvæði og læra faglega framsetningu á skriflegu formi sem og munnlegu. Nemendur stóðu sig vel og upp úr stendur að hjúkrunarfræðingar vinna störfin sín af alúð og áhuga, Covid-tímar í heilbrigðisþjónustu hafa ekki endilega neikvæð áhrif, sjúkraflutningafólki og lögreglumönnum þykja útköll vegna barna hvað erfiðust og mikill félags-og andlegur þroski á sér stað þegar einstaklingar velja að fara í skiptinám og barnfóstrun erlendis.

Nemendur í félagssálfræði höfðu enn frjálsari hendur í sínu lokaverkefni, bæði í verkefnavali og framsetningu. Þar fólst lokaverkefnið í því að velta fyrir sér og gefa félagslegu umhverfi markvisst gaum. Þar var áhersla á frumkvæði og hugmyndavinnu þar sem eitthvert af stóru félagssálfræði hugtökunum væru í hávegum höfð, s.s. staðalímyndir, viðhorf, fordómar, fortölur, ákvörðunartaka, hjálpsemi, hlýðni, fylgispekt, hópþrýstingur, hóphegðun og nethegðun. Nemendur lögðu fyrir viðhorfakannanir gagnvart ýmsum málefnum eins og athugasemdakerfum á netinu, samskiptaforritinu Onlyfans, og Nocco-orkudrykkjaneyslu. Nemendur innihaldsgreindu og skráðu hjá sér augljósan algóriþma við netnotkun, notkun fortalna í auglýsingum á völdum vefsíðum og nethegðun í nettölvuleikjum. Eins var hlýðni við stöðvunarskyldu vöktuð og skráð, ýmist í samvinnu við lögreglu og ekki.

Helstu niðurstöður þessarra smátilrauna eru að fólk almennt upplifir að það sé knúið til að „læka“ nýja uppfærslu á myndum hjá nákomnum á helstu samskiptamiðlum, samskiptaforritið Onlyfans er ekki gullnáma og gleði fyrir ungmenni, það er ákveðin fylgispekt í neyslu á Nocco-orkudrykkjum á Íslandi þar sem óskráð regla segi að „allir“ verði að smakka nýjar bragðtegundir þegar þær koma á markað, forritið TikTok kemur með tillögur að myndböndum í fullkomnu samræmi við það sem flett er upp á leitarvélinni Google, internetið er beinn áhrifavaldur þar sem leitarniðurstöður á Google geta viðhaldið staðalímyndum og jafnvel ýtt undir mismunun, ýmsar sálfræðibrellur og algóriþmi er notað í auglýsingum til að fanga athygli netnotenda og ökuþórar bæjarins stöðva frekar við stöðvunarskyldu ef löggæsla er sýnileg, en hlýðnin er þó ekki mikil.

Á þennan hátt ljúka margir nemedur sínum áföngum við FSH og það er virkilega gaman að sjá hvað nemendur eru skemmtilega hugmyndaríkir og sjá heiminn með allskonar sjónarhorni – ungdómurinn er svo með´etta...framtíðin er björt.