HÖNN1HH05(11) - Hugur og hönnun I

Hugmyndir og hönnun í nærsamfélagi

Einingafjöldi: 5
Þrep: 1
Forkröfur: Engar
Í áfanganum vinna nemendur verkefni sem tengjast nærsamfélagi þeirra, þ.e. Húsavík og nágrenni. Nemendur afla sér upplýsinga um núverandi starfsemi og þjónustu í samfélaginu og greina þarfir þess fyrir ný tækifæri. Í framhaldinu vinna nemendur hugmyndavinnu um hvernig hægt er að nota mannauð, tækni, vísindi, hönnun og listir til að skapa nýja atvinnumöguleika úr þeim auðlindum sem svæðið hefur upp á að bjóða. Lögð er áhersla á að nemendur læri að nota heimildir; bæði bækur, leitarvélar og fræðsluefni á veraldarvefnum, á ábyrgan og gagnrýninn hátt. Jafnframt er áhersla lögð á að nemendur velti fyrir sér umhverfissjónarmiðum og sjálfbærni í tengslum við nýtingu auðlinda. Við hugmyndavinnuna eru nemendur hvattir til að skrifa niður og teikna upp þær hugmyndir sem þeir fá í tengslum við efnið og halda skissumöppu (portfolio) sem sýnir hugmynda- og vinnuferlið í áfanganum. Nemendur velja svo þá hugmynd sem þeir telja best fallna til áframhaldandi þróunar. Nemendur læra á margvísleg tölvuforrit, s.s. myndvinnslu-, teikni- og framsetningarforrit og hvernig þau geta nýst við að koma hugmyndum á framfæri. Vinnuferlinu í áfanganum lýkur með því að nemendur kynna fyrir samnemendum sínum og kennara fullmótaða hugmynd með aðstoð þeirra framsetningaraðferða sem þeir hafa lært að nota í áfanganum.

Þekkingarviðmið

  • hvernig atvinnustarfsemi og þjónusta í nærsamfélaginu hefur þróast og er samsett á hverjum tíma
  • auðlindum í nágrenninu
  • virkni mismunandi tölvuforrita.

Leikniviðmið

  • framkvæma heimildaleit og vinna með heimildir á ábyrgan hátt
  • setja saman skissu- og hugmyndamöppu (portfolio) til að halda utan um hugmyndir sínar í áfanganum
  • vinna hugmynd frá upphafsreit yfir á það stig að hægt sé að kynna hana fyrir öðrum á áhugaverðan hátt með hjálp tölvuforrita eða handgerðra líkana/teikninga.

Hæfnisviðmið

  • vinna með heimildir á ábyrgan hátt
  • taka þátt í umræðu um umhverfismál og nýtingu auðlinda á upplýstan og gagnrýninn hátt
  • nýta tölvutækni til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd
  • kynna hugmyndir sínar fyrir öðrum, fjalla um næstu skref í þróun þeirra og hvað þurfi til þess að þær verði að veruleika.
Nánari upplýsingar á námskrá.is