Sértæk námsúrræði

Þjónusta við fatlaða
Fatlaðir nemendur skulu eiga þess kost að nýta sér það nám sem er í boði á almennum námsbrautum skólans með þeirri aðstoð sem þeir þurfa og skólinn getur veitt. Einnig skal boðið upp á nám á sérstökum námsbrautum þar sem kennsla og viðfangsefni miðast við fötlun nemandans.

Skólinn leitast þannig við að koma til móts við hvern og einn hverju sinni eins og kostur er.

Nám fyrir nemendur með takmarkaða kunnáttu í íslensku
Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku og íslenskir nemendur, sem hafa dvalið lengi erlendis og hafa þar af leiðandi takmarkaða kunnáttu í málinu, geta sótt um að stunda nám í íslensku samkvæmt sérstakri námskrá sem ætluð er þessum nemendum. Sama gildir um heyrnarlausa nemendur.

Hafi viðkomandi nemandi dvalið utan Norðurlanda þá getur hann sótt um að taka annað tungumál í staðinn fyrir Norðurlandamál.

Þjónusta við langveika nemendur og nemendur með geðrænan vanda
Skólinn leitast við að koma til móts við þarfir langveikra nemenda og nemenda með geðrænan vanda eins og kostur er. Laga þarf þjónustu skólans eftir aðstæðum hvers nemanda. Skólinn er tilbúinn til að:

  1. Gefa undanþágu frá reglum um skólasókn.
  2. Sjá um að senda námsgögn heim til nemandans.
  3. Sjá til þess að kennarar verði í internetsambandi við nemandann.

Önnur sértæk námsúrræði
Hér er fjallað um tilhliðranir varðandi námsvinnu, verkefnaskil og próftöku fatlaðra nemenda, langveikra nemenda, nemenda með geðrænan vanda, nemenda með annað móðurmál en íslensku og nemenda með sértæka námsörðugleika s.s. tal-, lestrar- og/eða skriftarhamlanir. Markmiðið er að þessum nemendum sé gert mögulegt að sýna þekkingu sína og færni í tiltekinni námsgrein án þess að fötlunin, veikindin, tungumálið eða hömlunin hafi áhrif á námsmatið.

Námsráðgjafinn:
a) Tekur við greiningum sem nemendur koma með, skoðar hvaða rétt þeir hafa til tilhliðrana og setur þá inn í þau úrræði sem skólinn veitir.
b) Auglýsir innan skólans í upphafi haust- og vorannar hvaða úrræði skólinn veitir nemendum með sértæka námsörðugleika.
c) Fundar í byrjun haust- og vorannar með kennurum þeirra nemenda sem eiga við sértæka námsörðugleika að etja.
d) Tekur við beiðnum varðandi sértækar þarfir í prófum, metur beiðnirnar og skráir.
e) Kemur upplýsingum til áfangastjóra sem ræðir við einstaka kennara ef veittar eru undanþágur frá prófareglum t.d. munnleg próf ofl.
f) Aðstoðar nemendur við að bæta námsaðstæður sínar, eins og best hentar í hverju tilviki, í samræm við óskir þeirra og þarfir.

Í fyrsta umsjónartíma haust- og vorannar hvetja umsjónakennarar nemendur til að hafa samband við námsráðgjafa ef þeir eiga við námserfiðleika að etja.

Próf:
Öllum beiðnum nemenda um sérúrræði varðandi próftöku ber að vísa til námsráðgjafa sem hefur umsjón með þessum málum.
1. Framlenging á próftíma: Nemendur sem fá lengri próftíma taka prófin í sömu stofu og aðrir nemendur. Áfangatjóri merkir L við nöfn þeirra á mætingalista. Að loknum venjulegum próftíma fá þessir nemendur framlengingu hver í sinni stofu (allar yfirsetur geta því orðið tveir tímar).
2. Lestur fyrirmæla: Nemandi getur fengið próffyrirmæli lesin við próftöku.
3. Próf á spólu/geisladiski: Kennara ber að verða við beiðni um innlestur á prófi hafi nemandi hans fengið til þess samþykki námsráðgjafa. Kennari skilar spólu/diski merktum nemandanum með öðrum prófum til ritara.
4. Munnlegt próf: Nemandi með sértæka námsörðugleika getur sótt um að fá að taka munnlegt próf að hluta eða í heild í stað skriflegs prófs. Námsráðgjafi kemur slíkum beiðnum til áfangastjóra sem skal hafa samráð við viðkomandi kennara um hvort við því verði orðið og þá hvar og hvenær munnlega prófunin fer fram.
5. Stækkun á letri: Öll skrifleg próf skulu prentuð með 12-14 punkta Ariel letri. Kennara ber að stækka letur ef nemandi með sjónskerðingu, alvarlega dyslexiu eða aðrar lestrarhamlanir fær slíka beiðni samþykkta hjá námsráðgjafa. Kennari skilar prófinu merktu nemandanum með öðrum prófum til ritara.
6. Sérstofa: Nemandi sem vegna mikils prófkvíða, veikinda eða annarra ástæðna á erfitt með að taka próf í almennri stofu getur sótt um að vera í fámennri stofu. Áfangastjóri finnur nemanda stað til próftöku og lætur nemanda vita. Kennarinn veitir nemandanum sömu þjónustu og öðrum nemendum við próftöku.
7. Sérstakt námsmat: Nemandi sem getur ekki tekið próf á sama hátt og aðrir í áfanganum og getur ekki heldur nýtt sér þau frávik sem um getur í liðum hér að ofan getur sótt um að vera metinn á annan hátt. Námsráðgjafi skal í samráði við viðkomandi kennara og áfangastjóra úrskurða hvort við því verði orðið. Kennara ber að framkvæma námsmatið með þeim hætti sem samkomulag verður um.

Námsvinna:
Almennt gildir að kennari taki tillit til fötlunar, veikinda og hömlunar nemanda svo sem unnt er með því að:
a) Hlífa nemanda með tal- eða lestrarörðugleika við fyrirvaralausum upplestri eða munnlegum flutningi (samið um hvenær texti verði lesinn / fluttur).
b) Gefa nemanda með skriftarhömlun kost á að hafa segulband í kennslustundum og/eða fá ljósrit af glærum og öðru kennaraefni sem nemandinn nær ekki að glósa í tímum.
c) Bjóða nemanda annan greinabundinn stuðning sem viðkomandi kennari sér möguleika á.

Verkefnaskil:
Almennt gildir að kennari taki tillit til fötlunar/hömlunar nemanda við verkefnaskil eftir því sem unnt er. Má þar nefna:
a) Nemandi með talörðugleika fái lengri tíma til munnlegra skila eða fái að skila verkefnum einslega til kennara eða skila verkefnum skriflega.
b) Nemandi með lestrarhömlun eigi möguleika á lengri skilafresti ef verkefni krefjast viðbótarlesefnis eða fái viðbótarlesefni á spólu. Ef verkefni fela í sér upplestur fái nemandi undirbúningstíma til að kynna sér textann eða jafnvel skila einslega til kennara.
c) Nemandi með stafsetningar- eða skriftarhömlun eigi kost á munnlegum skilum eða að skila verkefni á spólu eða að tekið sé vægara en ella á ritunar- og stafsetningarvillum í skriflegum skilum.