Menntasýn/stefna skólans

Stefna skólans - menntasýn

Menntasýn Framhaldsskólans á Húsavík er að veita öllum nemendum jafnan stuðning og undirbúning undir frekara nám eða þátttöku í samfélaginu með ríku utanumhaldi og eftirfylgni með námi og líðan hvers nemanda. Þetta er gert með áherslu á leiðsagnarmat, vörðuviðtöl, umsjón og miðannarmat auk annarrar eftirfylgni.

Grunnþættir og lykilhæfni aðalnámskrár koma skýrt fram í áfanga- og námsbrautarlýsingum Framhaldsskólans á Húsavík. Þeir þættir eru hluti af menntasýn skólans og eftir þeim er unnið í hverjum áfanga.

Framhaldsskólinn á Húsavík hefur það að leiðarljósi að vinna í samræmi við einkunnarorð sín sem eru Frumkvæði – Samvinna – Hugrekki. Lögð er áhersla á að þeir þættir sem endurspeglast í einkunnarorðunum liti allt daglegt starf skólans. Ítarleg vinna með einkunnarorð skólans og markviss þjálfun nemenda á sér stað í öllum áföngum skólans og jafnframt í samstarfi kennara, námsráðgjafa, hjúkrunarfræðings og forvarnarfulltrúa skólans með nemendum.

Framhaldsskólinn á Húsavík leggur áherslu á að efla frumkvæði nemenda.
Efling frumkvæðis
hefur það að markmiði:

  • að hlúa að styrkleikum hvers og eins og hvetja nemendur til skapandi hugsunar, og skapandi starfs.
  • að hvetja nemendur til þess að sjá nýjar leiðir og lausnir á fjölbreyttum úrlausnarefnum.

Framhaldsskólinn á Húsavík leggur áherslu á mikilvægi samvinnu allra þeirra sem í skólanum starfa, bæði nemenda og kennara, í öllu daglegu starfi.
Samvinna og samstarf hefur það að markmiði:

  • að þjálfa nemendur í lýðræðislegu starfi og lýðræðislegri hugsun.
  • að þroska með nemendum hæfileikann til þess að setja sig í spor annarra og bera virðingu fyrir ólíkum viðhorfum, og sýna umburðarlyndi, skilning og þolinmæði í samskiptum við aðra.
  • að nemendur öðlist dýpri skilning á hugtökum á borð við frelsi, jafnrétti og systkinalag með því að þeir fái frelsi til að tjá skoðanir sínar og taka ákvarðanir um nám sitt, hafi jöfn tækifæri til þátttöku og áhrifa án tillits til félags- og efnahagslegrar stöðu, hæfni, reynslu, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, trúarafstöðu, kynþáttar eða þjóðernis. Að nemendur efli samskiptahæfni sína með því að vinna með öðrum að fjölbreyttum viðfangsefnum, læri að leysa úr ágreiningi, vinni gegn mismunun og einelti, öðlist meiri sjálfsaga og taki ábyrgð á eigin gerðum.
  • að vinna með nærsamfélagi skólans að því að þroska grenndarvitund nemenda og stuðla með þeim hætti að því að nemendur öðlist dýpri þekkingu og skilning á nærsamfélagi sínu og því umhverfi sem þeir eru hluti af.

Framhaldsskólinn á Húsavík leggur áherslu á að efla hugrekki nemenda í daglegu starfi sínu. Efling hugrekkis hefur það að markmiði:

  • að efla sjálfstraust og sjálfsvirðingu nemenda með því að hvetja þá til þess að sýna sjálfum sér og öðrum umhyggju og virðingu.
  • að nemendur fái þá hvatningu og stuðning sem þarf til að þeir sjái hvers þeir eru megnugir.
  • að nemendur hafi kjark og þor til að tjá tilfinningar sínar og skoðanir, standa með sjálfum sér og lifa heilbrigðu lífi.

 

01.02.2021.