Nemendafélag FSH

9.4.2019

SAMNOR fundur um samstarf skólastiga

Í mars síðastliðnum kom skólafólk á Norðausturlandi saman til þess að ræða nýbreytni í samstarfi skólastiga. Til fundarins boðaði SAMNOR og voru stjórnendur grunnskóla, háskóla og símenntunarstöðva auk sveitastjórnarfólks boðuð á fundinn. Þar voru haldin erindi út frá sjónarhóli grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og símenntunarsöðva. Í kjölfar erinda voru svo haldnar pallborðsumræður þar sem rædd voru sveigjanleg skil milli grunn- og framhaldsskóla, námsmat og hvað fælist í því. Rætt var um innihald stúdentsprófa og mikinn sveigjanleika í námsframboði framhaldsskóla og þær kröfur sem gerðar eru til undirbúnings fyrir háskólanám. Rætt var um samstarf framhaldsskóla og símenntunarstöðva, raunfærnimat, aðlögun brotthvarfsnemenda að námi og sérstakt nám í tengslum við vinnumarkað.

Mikill áhugi var fyrir frekara samstarfi skólastiga við þróun skólastarfs á Norðausturlandi.

SAMNOR samanstendur af Framhaldsskólanum á Húsavík, Framhaldsskólanum á Laugum, Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Tröllaskaga og Verkmenntaskólanum á Akureyri.