Nemendafélag FSH

22.8.2012

Framhaldsskólinn á Húsavík settur í 26. sinn

Framhaldsskólinn á Húsavík var settur í dag og hóf þar með sitt 26. starfsár. Að þessu sinni hefja 26 nýnemar nám við skólann að loknum 10. bekk og koma þeir flestir úr Borgarhólsskóla. Alls eru rúmlega 140 nemendur skráðir til náms við skólann og eru það heldur færri nemendur en í fyrra. Fækkunin er fyrst og fremsti í hópi eldri nema þar sem stór hluti þeirra brautskráðist frá skólanum sl. vor.

Talsverðar breytingar hafa orðið á starfsliði skólans.  Árný Þóra Ármannsdóttir náms- og starfsráðgjafi hefur látið af störfum við skólann svo og Hafdís Hallsdóttir sem annaðist húsaumsjón í fyrra vetur. Þá hefur Svanhildur Jónsdóttir hætt störfum sem ritari þar sem Sæunn Helga Björnsdóttir er nú komin til baka úr leyfi. Síðast en ekki síst þá hefur Sigríður Hauksdóttir látið af störf við skólann en hún hefur auk kennslu gegnt starfi félagsmála- og forvarnafulltrúa undanfarin ár.  Þeim er öllum þakkað einstaklega gott samstarf og störf í þágu nemenda skólans og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi. Þá verða þau Herdís Sigurðardóttir aðstoðarskólameistari og Ingólfur Freysson kennari í leyfi í vetur, Herdís verður í fæðingarorlofi til áramóta og Ingólfur í námsleyfi allt þetta skólaár.  Þá lauk ráðningartíma Björgvins Rúnars Leifssonar sem áfangastjóra um síðustu mánaðarmót en hann mun þó gegna starfi áfangastjóra til áramóta í fjarveru Herdísar.
Nýir starfsmenn á þessu hausti eru Hjördís Eva Ólafsdóttir sem gegna mun starfi náms- og starfsráðgjafa og jafnframt sinna kennslu í uppeldisfræði og tónlistarkennslu á starfsbraut, Unnar Þór Garðarsson mun sjá um íþróttakennslu í námsleyfi Ingólfs Freyssonar, Jóhann Kristinn Gunnarsson mun kenna ensku á haustönn og þá hefur Sigurður Narfi Rúnarsson verið ráðin félagsmála- og forvarnafulltrúi skólans. Loks má geta þess að Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, sem verið hefur stundakennari við skólann, mun kenna bæði grunnteikningu og áfangann Hugur og hönnun á haustönn.
Í vetur mun skólinn halda áfram þátttöku í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli. Sérstök áhersla verður lögð á mikilvægi hreyfingar fyrir heilsu og líðan. Þá verður áfram unnið að nýrri skólanámskrá með hliðsjón af aðalnámskrá framhaldsskóla.
Í sumar var skólahúsið málað að utan og kennslustofa starfsbrautar endurnýjuð, þá voru einnig gerðar breytingar á tölvuveri skólans og það aflagt sem slíkt enda fartölvueign nemenda orðin almenn. Stofan er nú hugsuð sem vinnustofa fyrir nemendur. 
Í vetur munu nemendur skólans stunda nám á almennri braut, félagsfræðibraut, náttúrufræðibraut, starfsbraut og félagsliðabraut.