Nemendafélag FSH

29.5.2012

Skólaslit og brautskráning (1)

Framhaldsskólanum á Húsavík var slitið við hátíðlega athöfn í Húsavíkurkirkju laugardaginn 26. maí að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru 40 nemendur brautskráðir frá skólanum, 24 nemandur voru brautskráðir með stúdentspróf og 18 af starfsnámsbrautum, þar af voru tveir nemendur brautskráðir með próf af tveim brautum. Þá hafa samtals 711 nemendur verið brautskráðir frá skólanum, 410 með stúdentspróf, 63 iðnnemar og 236 með önnur próf.
Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut að þessu sinni Inga Ósk Jónsdóttir, I. ág. einkunn 9,46. Inga Ósk fékk af þessu tilefni viðurkenningu frá Hollvinum skólans og Bókaverslun Þórarins Stefánssonar. Inga Ósk hlaut einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í dönsku frá sendiráði Danmerkur á Íslandi, viðurkenningu fyrir góðan árangur í þýsku frá sendiráði Þýskalands á Íslandi, viðurkenningu fyrir góðan árangur í raungreinum frá Háskólanum í Reykjavík, viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði frá Vátryggingafélagi Íslands, viðurkenningu fyrir góðan árangur í tungumálum frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands, viðurkenningu fyrir góðan árangur í íslensku frá Sparisjóði Suður-Þingeyinga, viðurkenningu fyrir góðar árangur í jarðfræði frá Gámaþjónustu Norðurlands og viðurkenningu fyrir góðan árangur í efnafræði frá Efnafræðifélagi Íslands. Aðrar viðurkenningar hlutu Brynja Rún Benediktsdóttir fyrir góðan árangur í sál- og uppeldisfræði frá Lyfju á Húsavík og fyrir félagsstörf frá Skarpi, Hafþór Reinhardsson fyrir góðan árangur í sögu og félagsfræði frá Íslandsbanka, Magnea Rún Hauksdóttir fyrir félagsstörf frá Framsýn, stéttarfélagi í Þingeyjarsýslum og Elsa Dóra Ómarsdóttir fyrir félagsstörf frá Tómstunda- og æskulýðssviði Norðurþings, en Elsa Dóra gegndi embætti formanns nemandafélags FSH í vetur. Þá hlutu þau Fannar Freyr Kristinsson, Hafþór Reinhardsson og Líney Gylfadóttir viðurkenningu frá sendiráði Kanada á Íslandi fyrir góðan árangur í ensku og var það hr. Alan Bones sendiherra Kanada á Íslandi sem afhenti þeim verðlaunin. Þá hlaut Gunnþórunn Þórgrímsdóttir viðurkenningu fyrir besta námsárangur í brúarnámi frá Landsbankanum á Húsavík og Ruth Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu Menningarsjóðs þingeyskra kvenna, en Ruth útskrifaðist af námsbraut fyrir leiðbeinendur í leikskóla jafnframt því sem hún lauk viðbótarnámi til stúdentsprófs. Þrír nemendur luku námi með 100% skólasókn en það voru þær Inga Ósk Jónsdóttir, Magnea Rún Hauksdóttir og Líney Gylfadóttir.
Skólameistari brautskráði einn stúdent, Maríu Rebekku Kristjánsdóttur, fyrir hönd Verkmenntaskólans á Akureyri, María hlaut viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.
Við upphaf athafnarinnar söng Líney Gylfadóttir lagið Songbird við gítarundirleik Kristjáns Elinórs Helgasonar nýstúdents. Fyrir brautskráningu lék Kristján Elinór Helgason á gítar verkið Rosita eftir Fransisco Tarrega.
Að loknu ávarpi skólameistara, flutti Ingunn Helga Bjarnadóttir ávarp fyrir hönd 20 ára útskrifarnema og Kolbrún Ada Gunnarsdóttir flutti ávarp fyrir hönd 10 ára útskriftarnema. Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir flutti kveðjuávarp fyrir hönd útskriftarnema við góðar undirtektir viðstaddra.
Framhaldsskólinn á Húsavík óskar nemendum sínum hjartanlega til hamingju með áfangann, þakkar þeim ánægjulega samveru og samstarf á liðnum árum og óskar þeim allra heilla í framtíðinni.