Nemendafélag FSH

7.3.2012

Opið hús í FSH - Okkar samfélag - okkar framtíð

Þemadögum í FSH lauk með OPNU HÚSI í skólanum sl. fimmtudag, þar sem nemendur kynntu framtíðarsýn sína í hinum ýmsu málaflokkum. Í upphafi þemaviku var nemendum skipt upp í fimm hópa og fékk hver hópur eina kennslustofu til umráða. Hóparnir drógu um eitt meginviðfangsefni en þau voru að  þessu sinni; atvinnumál, mennta- og menningarmál, skipulagsmál, frístundir og velferðar- og jafnréttismál.   
Nemendur kynntu hugmyndir sínar með fjölbreyttum hætti m.a. með því að búa til veggspjöld, myndbönd og líkön af mannvirkjum af ýmsu tagi, auk þess sem þeir dreifðu margskonar kynningarefni til gesta.  Eftir að hafa kynnt sér málefni nemenda og framsetningu þeirra gafst gestum kostur á að greiða því „framboði“ sem þeim hugnaðist best atkvæði sitt. Fjöldi gesta lagði leið sína í skólann þennan daga og tóku 70 þeirra þátt í kosningunni.  Niðurstöður voru kynntar á árshátíð skólans og fóru leikar þannig að framboðið FRAMTÍÐIN OKKAR ROKKAR hlaut 31% atkvæða og hampaði þar með SAMFÉLAGSBIKARNUM. Nánar verður fjallað um hugmyndir nemenda á næstu dögum. Myndir frá þemadögum og opnu húsi eru hér.