Nemendafélag FSH

16.11.2011

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur (1)

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í dag. Af því tilefni komu nemendur og starfsfólk skólans saman á sal og gerðu sér glaðan dag með söng, hljóðfæraleik og upplestri ljóða. Allir þeir sem komu að skemmtuninni stóðu sig með mikilli prýði.
Að loknu ávarpi skólameistara flutti Brynja Rún Benediktsdóttir erindi um ævi Jónasar Hallgrímssonar og sá síðan um að kynna aðra flytjendur til leiks, en dagskráin var sem hér segir:
Aðalbjörn Jóhannsson flutti brot úr ljóðinu Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson, að því loknu var spiluð upptaka af flutningi Svavars Knúts á ljóðinu við lag Atla Heimis Sveinssonar. Þá flutti Líney Gylfadóttir ljóðið Ferðalok eftir Hallgrím Helgason.
Því næst var hlýtt á ljóðið Ísland eftir Margréti Jónsdóttur í flutningi Fjallabræðra. Sigrún Lilja Sigurgeirsdóttir las að því loknu ljóðið Ísland eftir Hallgrím Helgason.
Dóra Ármannsdóttir íslenskukennari las því næst nokkur ljóð úr nýrri ljóðabók Ingunnar V. Sigmarsdóttur en Ingunn er stúdent frá FSH. Sigurður Sigurjónsson fór með ljóðið Öfugmælavísur eftir Kristján Svavarsson og Hafþór Reinhardsson las ljóðið Lífsreynsla eftir Dag Sigurðarson. Þá var komið að Fannari Frey Kristinssyni en hann flutti frumsamið ljóð sem hann nefndi Jarðarför. Að lokum spiluðu þeir Axel Flóvent Daðason, Brynjar Friðrik Pétursson og Gunnar Ingi Jósepsson af stakri snilld á gítara og píanó lögin Tico Tico og Fýlupúkann, sem er frumsamið lag. Gunnar Ingi tók síðan áskorun um að flytja eitt aukalag sem hann gerði við góðar undirtektir viðstaddra.