Nemendafélag FSH

23.11.2010

Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu í heimsókn

Landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu var með æfingar og fyrirlestur fyrir nemendur á íþróttaafreksbraut FSH sl. fimmtudag. Sigurð þarf vart að kynna en hann náði þeim einstaka árangri að koma landsliði kvenna á EM 2009. Fimmtudagurinn hófst með tveggja klukkustunda æfingu í Íþróttahöllinni og síðan var Sigurður með mjög fróðlegan fyrirlestur um markmið og leiðir afrekstíþróttamanna. Deginu lauk svo með sérstökum fundi með stúlkunum á afreksbrautinni.

Mikil ánægja var með þessa heimsókn Sigurðar og var margt sem bæði nemendur,kennarar og þjálfarar Völsungs lærðu af fræðum og reynslu þessa góða þjálfara. Afrekshópurinn hefur æft stíft á þessari önn og verður haldið áfram á vorönn 2011. Samhliða markvissri þjálfun verður haldið áfram að miðlað til nemenda ýmiskonar fræðslu um þjálfun og mataræði.

Þetta samstarfsverkefni FSH og Völsungs hefur gengið mjög vel og nemendur hafa stundað æfingar og þjálfun af dugnaði og elju. Þeir Ingólfur Freysson frá FSH og Jóhann Kristinn Gunnarsson frá Völsungi hafa leitt þetta starf.