Nemendafélag FSH

18.11.2008

Dagur íslenskrar tungu (1)

 

Á undanförnum árum hefur sú hefð skapast að halda upp á dag íslenskrar tungu 16. nóvember ár hvert á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.  Í ár bar þennan dag hins vegar upp um helgi og var hann því haldinn hátíðlegur í FSH mánudaginn 17. nóvember.  Hátíðin fór fram í sal skólans og hófst dagskráin á því að skólameistari flutti stutt erindi í tilefni dagsins.  Oddvar Haukur Árnason las texta um Jónas Hallgrímsson og Halla Marín Hafþórsdóttir flutti ljóð eftir skáldið.  Davíð Helgi Davíðsson og Silja Árnadóttir lásu texta um Stein Steinar og fluttu ljóð eftir hann en Steinn á einmitt 100 ára fæðingarafmæli um þessar mundir.  Guðlaug Sigríður Magnúsdóttir las frumsamið ljóð og Sæunn Kristjánsdóttir flutti ljóð eftir tvo nemendur skólans.   Jafnframt voru sungin lög við texta eftir Jónas Hallgrímsson, Stein Steinarr og Huldu við undirleik Hólmfríðar Benediktsdóttur.  Hátíðin tókst vel í alla staði og var góður rómur gerður að máli nemenda sem önnuðust ljóða- og textaflutning.  Starfsfólk FSH vill jafnframt þakka Hólmfríði Benediktsdóttur fyrir sitt framlag en hún hefur ætíð verið boðin og búin að annast undirleik þegar til hennar hefur verið leitað.