Nemendafélag FSH

27.11.2006

Þingeyingar keppa

Hlöðver, Ármann og Davíð úr BorgarhólsskólaFöstudaginn 24. nóvember var spurningakeppni grunnskólanna í Þingeyjarsýslu haldin í fyrsta sinn. Framhaldsskólinn á Húsavík bauð til keppninnar og höfðu nemendur hans veg og vanda af henni með dyggri aðstoð kennara síns, Valdimars Stefánssonar. Stefnt er að því að þetta verði árlegur viðburður.
Fimm skólar tóku þátt í keppninni þ.e. Borgarhólsskóli, Litlulaugaskóli, Grunnskóli Raufarhafnar, Grunnskóli Skútustaðahrepps og Öxarfjarðarskóli. Nánast allir nemendur 8.-10. bekkja fylgdu keppendum til að styðja þá og hvetja og myndaðist mikil og góð stemmning meðal áhorfenda. Keppnin hófst kl. 14 og kl. 18 var gert hlé til að sjá syningu nemenda Borgarhólsskóla, söngleikinn “Hvort er ég barn eða fullorðinn” og síðan bauð Framhaldsskólinn öllum í pizzuveislu. Sex þriggja manna lið tóku þátt í keppninni sem fór fram með útsláttarfyrirkomulagi. Keppnin var mjög hörð og munaði oft mjóu á liðunum. Til úrslita kepptu lið Grunnskóla Skútustaðahrepps í Mývatnssveit og  Borgarhólsskóla á Húsavík.Keppnin var hnífjöfn og spennandi en að lokum stóðu nemendur Borgarhólsskóla uppi sem sigurvegarar með 16 stig gegn 14. Liðið skipuðu þeir Ármann Örn Gunnlaugsson, Davíð Helgi Davíðsson og Hlöðver Þorgeirsson. Þeir hlutu vegleg verðlaun og auk þess farandbikar til varðveislu.
Fleiri myndir