Nemendafélag FSH

1.9.2006

Starfsdagar á haustönn

Starfsfólk FSHÁ starfsdögum skólans í síðustu viku var sú nýbreytni að farið var í óvissuferð með allt starfsfólkið. Fyrst var farið í rútu upp í Mývatnssveit í náttúruskoðun. Þar var jarðfræðingurinn okkar, Gunnar Baldursson,  með fræðslustund um jarðfræði og síðan fræddi líffræðingurinn, Björgvin Leifsson, okkur um lífríkið í Mývatni. Þaðan var svo haldið upp á Möðrudalsöræfi.
Við heimsóttum hjónin sem reka ferðaþjónustu á heiðarbýlinu Sænautaseli. Sænautasel er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem fara um þetta landsvæði. Um 4000 - 5000 manns heimsækja staðinn á hverju sumri og hefur aukning orðið síðan framkvæmdir við Kárahnjúka byrjuðu. Bærinn hefur verið endurgerður í upprunarlegri mynd og hefur starfsemin falist í að gefa gestum tækifæri til að sjá hvernig búið var á heiðarbýlum hér á árum áður. Leiðsögumaður um svæðið var Eyþór Guðmundsson sem bjó þar til 11 ára aldurs en hann er sonur síðasta ábúandans. Býlið lagðist í eyði 1943.
Eftir að hafa fengið lummukaffi í Sænautaseli,var haldið í Fjallakaffi í Möðrudal sem er mjög notalegur veitingastaður. Við gistum í nýbyggðu fallegu gistiheimili sem er byggt sem burstabær og skoðuðum okkur um á svæðinu.  Okkur gafst kostur á að horfa á "drottningu íslenskra fjalla" Herðubreið, í sinni fegurstu mynd og mála síðan myndir af henni. Veðrið var einstaklega fagurt þessa daga og komu allir glaðir og sáttir heim eftir fróðlega og ánægulega ferð.
Fleiri myndir