Nemendafélag FSH

24.8.2006

Framhaldsskólinn settur í 20. sinn

Guðmundur BirkirFramhaldsskólinn á Húsavík var settur í dag. Skólameistari lagði í ræðu sinni áherslu á að starfsfólk skólans gegndi mikilvægu þjónustuhlutverki við nemendur og þeir ættu að gera miklar kröfur til þess. Skólinn vildi ekki bara sinna hlutverki sínu vel heldur mjög vel og að þeir sem þjónustunnar nytu væru harðánægðir.
Á sama hátt væri ábyrgð nemendanna mikil að nýta sér vel þessa þjónustu sem væri nánast ókeypis fyrir þá, sameiginlegir sjóðir landsmanna greiddu námskostnað þeirra nánast að fullu. Við innritun gerðu nemandi og skóli með sér ákveðinn samning og í honum fælist líka að skólinn gerði ákveðnar kröfur til nemendanna um viðveru, ástundun og hegðun alla. Meistari fagnaði því að nú væri enn á ný að færast líf í skólahúsið og að hann vænti þess að nemendur væru fullir tilhlökkunar eins og starfsfólkið og að þetta góða samfélag nemenda og starfsfólks muni eiga góða daga í vetur.
Vel hefur gengið að ráða nýja starfsmenn og var það nánast frágengið um það bil sem skóla var slitið í vor, líkt og fyrir ári síðan. Þetta er nýlunda í skólastarfinu því áður fyrr voru kennararáðningar á síðustu stundu og oft tekin viss áhætta um hæfni nýliðanna. Þessa breytingu má þakka töluverðri hækkun á launum kennara á allra síðustu árum þó enn megi gera betur í þeim efnum. Nýir starfsmenn skólans á næsta skólaári eru:
Auður Jónasdóttir þroskaþjálfi sem kennir á starfsbraut
Guðný Helga Árnadóttir sem kennir dönsku
Herdís Þuríður Sigurðardóttir sem kennir íslensku í námsorlofi Dóru Ármannsdóttur
Jóhanna Logadóttir sem stýrir bókasafninu í launalausu leyfi Elínar Kristjánsdóttur
Sigríður Hauksdóttir sem kennir sálfræði og íslensku og verður félagsmála- og forvarnafulltrúi Svanhildur Jónsdóttir sem tekur við starfi skólaritara af Hjördísi Sverrisdóttur
Valdimar Stefánsson sem kennir sagnfræði og skyldar greinar í stað Árna Geirs Magnússonar.

Nú er að hefjast tuttugasta starfsár skólans og á næsta ári stendur ýmislegt til á afmælisári en það verður tíundað betur þegar nær dregur.
Nú eru skráðir nemendur við skólann alls 178 og eru þa ekki taldir nemendur úr 10. bekk Borgarhólsskóla sem munu taka tvo áfanga við FSH sem valgreinar í sínu námi. Nemendafjöldinn hefur verið í jafnvægi síðasta áratug þó að fækkað hafi í sveitarfélaginu um rúmlega 300 manns og verður það að teljast góður varnarsigur.
Starfsmenn skólans í föstu starfi verða 19 á þessari önn.

Myndir frá skólasetningu