Nemendafélag FSH

2.11.2005

Miðannarmat nýjung í FSH

Á þessu skólaári er tekin upp sú nýbreytni við FSH að allir nemendur fá svokallað miðannarmat. Það er gefið í heilum tölum eins og aðrar einkunnir skólans. Tilgangur miðannarmats er að auka enn þjónustu við nemendur og aðstandendur þeirra og gefa þeim upplýsingar um stöðu nemandans í hverri námsgrein eftir að námsönn er hálfnuð. Miðannarmatið á að vera jákvæð jákvæð örvun fyrir alla nemendur. Þeir sem stunda námið af kostgæfni og með góðum árangri fá staðfestingu á því og um leið hvatningu til að stunda námið áfram af kappi. Þeir sem af einhverjum ástæðum hafa ekki náð fyllilega tökum á námsefninu fá upplýsingar um stöðu sína áður en allt er um seinan og tækifæri til að snúa vörn í sókn á síðari hluta annarinnar. Miðannarmatið gildir ekki sem hluti af námseinkunn heldur er það mat kennarans á vinnu nemandans og námsárangri á fyrri hluta annarinar og um leið ágiskun um líklega niðurstöðu námsmatsins í annarlok. Það er von kennara FSH að þessi aukna upplýsingagjöf til nemenda og forráðamanna þeirra verði til að styrkja skólastarfið og bæta námsárangur.